Skoðun

Menntun án siðferðis er einskis virði

Hanna Björg Vilhjálmsdóttir skrifar
Á ráðstefnu Alþjóðasamtaka kennara (Education International) sat undirrituð pallborðsumræður þar sem kennarar og forystufólk í kennarasamtökum frá Brasilíu, Filipseyjum, Bretlandi, Bandaríkjunum og Frakklandi ræddu blekkingastjórnmál (eða staðleysustjórnmál – e. post truth politics).

Fyrsta dæmið um stjórnmál af þessu tagi var sjálfur Trump (nú kallað Trumpismi) þar sem hann gróf undan lýðræðinu – notaði kerfisbundið blekkingar, rangfærslur, dylgjur og hreinar og klárar lygar – til að undirstrika sína pólitík. Það virkaði.

Svo var Brexit rætt í tengslum við stjórnmál af þessu tagi og dæmið tekið um þrástef Brexitsinna um að þær svimandi fjárhæðir, sem færu frá Bretlandi í hverri viku til Evrópusambandsins, ættu að fara í heilbrigðiskerfi Breta. Daginn eftir úrslitin sagði helsti talsmaður Brexit að þessar tölur hefðu verið mistök – að það hefði verið rangt farið með „staðreyndir“. Engu að síður hömruðu Brexitsinnar á þessu alla kosningabaráttuna. En vitaskuld stóð aldrei til að dæla Evrópupeningum í heilbrigðiskerfið – en menn vissu að almenningur vildi styrkja velferðarkerfið svo það var bitið á agnið eins og til var ætlast.

Franska kennslukonan i pallborðsumræðunum ræddi hvernig Marine Le Pen beitti rangfærslum og rasisma til að höfða til lægri hvata fólks og styðja við hana. Það virkaði. Staðleysur eru notaðar kerfisbundið og hamrað á þeim – og við vitum að ef lygin er síendurtekin – þá upplifir fólk lygina sem „sannleika“. Það var næstum átakanlegt að heyra lýsingar bandarísku kennslukonunnar þegar hún sagði frá viðbrögðum kennara í hennar ranni við kjöri Trump, fyrst sorg – sem breyttist í reiði – og gerði það að verkum að samstaða meðal kennara efldist. Kennarar í Bandaríkjunum sjá aukningu á einelti, ofbeldi og hatri meðal nemenda – í kjölfar Trumpismans.

Svar þeirra er í pallborðinu sátu við þessum veruleika var að menntakerfið (kennarar) gegndi lykilhlutverki. Það var ekki sagt að menntakerfið hefði brugðist og því kæmist stjórnmálafólk upp með blekkingastjórnmál. Að menntakerfið hefði brugðist þeirri grundvallarskyldu sinni að þjálfa nemendur í gagnrýnni hugsun, að ígrunda áður en dæmt er, að forðast ómeðvitaða hlutdrægni og ekki síst – að efla siðvit nemenda. Þó svo færa megi fyrir því rök að skólakerfið beri ákveðna ábyrgð á því að blekkingastjórnmál virki á almenning.

Frummælendur sögðu hins vegar að kennarar væru að bregðast við og þyrftu að efla menntun og samstöðu sín á milli til að viðbrögðin verði kraftmeiri og alþjóðleg. Því var haldið fram að menntun án siðferðis væri einskis verð. Þekking án tengsla við mennsku væri skaðleg. Efling borgaravitundar væri lykilatriði og allir kennarar, án tillits til þess fags sem þeir kenna, ættu að leggja áherslu á að fá nemendur til að skilja ábyrgð þeirra sem samfélagsþegna. Heimsvæðing samkenndar væri nauðsynleg. Mannréttindafræðsla ætti að vera sjálfsögð – alls staðar.

Á nákvæmlega sama tíma og undirrituð kennslukona sat og hlustaði á félaga sína lýsa hryllilegum veruleika sínum, þá birtist frétt á Íslandi um einkavæðingu framhaldsskóla. Allir þeir fræðingar sem fjallað hafa um einkavæðingu í menntakerfinu, og hafa talað á vettangi kennarasamtaka á alþjóðavísu, hafa allir lýst þeim hörmungum sem það kallaði yfir menntunina.

Skortur á fagmennsku – til að spara. Fjöldi í námshópum verður meiri – til að spara. Réttindalausir leiðbeinendur í stað kennara – til að spara. Stöðlun á kostnað mennsku – til að mæla „árangur“ – til að spara. Þessi andstaða við einkavæðingu meðal kennara er af gefnu tilefni og andstaðan er rauður þráður í umræðum um skólamál. Einkavæðing er líklega skilvirkari – en gæði menntunar hrapa.

Sennilega hefur heimurinn ekki séð svartari tíma í áratugi – en einmitt nú. Menntakerfið gegnir lykilhlutverki í að spyrna við þeirri óheillaþróun sem er að eiga sér stað. Að einkavæða í menntakerfinu er glapræði.




Skoðun

Sjá meira


×