Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Valur - KR 2-1 | Valsmenn hlupu framhjá KR-ingum

Smári Jökull Jónsson skrifar
Guðjón Pétur Lýðsson fagnar með félögum sínum eftir að hann kom Val í 1-0.
Guðjón Pétur Lýðsson fagnar með félögum sínum eftir að hann kom Val í 1-0. Vísir/Anton
Valsmenn settust við hlið Stjörnumanna á toppi Pepsi-deildar karla eftir heimasigur á nágrönnunum og erkifjendunum úr Vesturbænum.

Valur vann KR 2-1 en liðið hefur þar með náð í 10 stig af 12 mögulegum í fyrstu fjórum umferðunum og er með tíu stig eins og Stjarnan.

Fyrri hálfleikur var gríðarlega fjörugur. KR-ingar voru mikið betri aðilinn fyrstu 25 mínútur leiksins og Valsmenn áttu varla sókn. Þeir komust þó yfir á 14.mínútu þegar Guðjón Pétur Lýðsson skoraði eftir langt innkast frá Arnari Sveini Geirssyni. Algjörlega gegn gangi leiksins.

KR hélt áfram að sækja og fengu vítaspyrnu á 22.mínútu þegar Óskar Örn Hauksson féll í teignum. Hann tók spyrnuna sjálfur en skaut í utanverða stöngina. Illa farið með gott færi.

Eftir þetta fóru Valsmenn að taka við sér. Þeir fóru að sækja sífellt meira og Kristinn Ingi Halldórsson fékk algjört dauðafæri um miðjan hálfleikinn sem hann misnotaði.

Anton Ari Einarsson í marki Vals var öruggur í öllum sínum aðgerðum og varði meðal annars vel frá Kennie Chopart úr dauðafæri þegar tíu mínútur voru til hálfleiks.

Á lokamínútum fyrri hálfleiks komust Valsmenn síðan í 2-0. Dion Acoff átti þá sendingu inn fyrir vörn KR. Kristinn Ingi var kolrangstæður en lét boltann hins vegar vera eftir skipanir frá Sigurði Agli Lárussyni sem kom á sprettinum. Sigurður Egill gerði engin mistök og skoraði framhjá Stefáni Loga í marki KR.

Staðan í hálfleik 2-0 fyrir Valsmenn. Seinni hálfleikur hófst fjörlega. Guðjón Pétur fékk fínt færi í upphafi hans en Stefán Logi var vel á verði. Tobias Thomsen komst síðan einn gegn Antoni Ara sem varði enn á ný.

Það róaðist töluvert yfir leiknum eftir þetta. KR-ingar reyndu að sækja á Valsmenn sem voru þó þéttir fyrir í vörninni og með Anton Ara traustan þar fyrir aftan.

Anton Ari gerði þó einu mistök sín í leiknum á 82.mínútu þegar hann var of seinn út í boltann og felldi Pálma Rafn Pálmason í teignum. Tobias Thomsen skoraði af öryggi úr vítinu og leikurinn orðinn spennandi.

KR náði þó ekki markinu sem þeir vildu og Valsmenn fögnuðu því sætum sigri.

Af hverju vann Valur?

Valsmenn nýttu sín færi aðeins betur en KR-ingar í kvöld. Gestirnir voru mikið betri í upphafi og það var algerlega gegn gangi leiksins þegar Guðjón Pétur skoraði. Vendipunkturinn var þegar Óskar Örn klikkaði á vítapunktinum því eftir það unnu Valsmenn sig inn í leikinn.

Bæði lið hefðu vel getað skorað nokkuð mörk í fyrri hálfleiknum en Valsmenn gerðu það sem KR gat ekki – komið boltnaum í netið.

Í síðari hálfleik voru Valsmenn skynsamir og með 2-0 forystu er erfitt að eiga við þá. Markið frá Tobias Thomsen setti smá spennu í leikinn en Valsmenn stóðu það af sér.

Hverjir stóðu upp úr?

Hjá Val var Anton Ari mjög góður en gerði stór mistök þegar hann fékk dæmda á sig vítaspyrnuna. Að öðru leyti var maður hans svo til gallalaus. Dion Acoff og Sigurður Egill Lárusson voru báðir skeinuhættir á köntunum en bestur Valsmanna var Einar Karl Ingvarsson sem var mjög sterkur á miðjunni.

Haukur Páll átti fínan leik sömuleiðis en var heppinn að fjúka ekki útaf því Þóroddur hefði vel getað spjaldað hann í fyrri hálfleik. Þá var Rasmus Christiansen góður eftir að Valsmenn mættu til leiks eftir dapra byrjun.

Hjá KR var Kennie Chopart líflegur en hefði átt að skora. Morten Beck er yfirleitt traustur og var það oftast nær í kvöld, hann ógnar vel sóknarlega en Sigurður Egill stríddi honum á kantinum.

Hvað gekk illa?

Það verður að tala um færanýtinguna í leiknum og þá sérstaklega fyrri hálfleik. Kristinn Ingi Halldórsson hlýtur að naga sig í handarbakið að hafa ekki skorað að minnsta kosti tvö mörk fyrir hlé og eitt færið sem hann misnotaði hlýtur að fara í flokkinn „Klúður ársins“ hjá Pepsi-mörkunum.

Valsmenn mættu ekki til leiks í upphafi en KR nýtti ekki yfirburðina sem þeir höfðu í upphafi. Þeir sköpuðu sér færi en nýttu þau ekki.

Þegar Valsmenn fóru að bíta frá sér gekk varnarmönnum KR engan vegin að halda hröðum sóknarmönnum KR í skefjum. Heimamenn spiluðu hvað eftir annað á bakvið vörn KR og fengu fjöldan allan af færum.

Hvaða gerist næst?

KR á annan stórleik í næstu umferð en þá fá þeir FH í heimsókn. Bæði lið hafa byrjað tímabilið verr en þeir ætluðu sér en pressan er líkast til meiri á Íslandsmeisturum FH sem þurfa sigur. KR þarf hann líka og það verður mikið undir í Vesturbænum þegar þessi tvö stórveldi mætast.

Valsmenn halda til Grindavíkur í næstu umferð og mæta þar heimamönnum sem hafa byrjað tímabilið vel. Þetta eru leikirnir sem Valsmenn þurfa að vinna ætli þeir sér titilbaráttu í sumar og þeir undirbúa sig örugglega í samræmi við það. Grindvíkingar töpuðu illa sínum síðasta heimaleik og vilja eflaust bæta fyrir það með betri leik.



Valur (4-2-3-1)


Anton Ari Einarsson 7 – Arnar Sveinn Geirsson 6, Orri Sigurður Ómarsson 6, Rasmus Christiansen 7, Bjarni Ólafur Eiríksson 5 – Haukur Páll Sigurðsson 7, Einar Karl Ingvarsson 8 (Maður leiksins) – Dion Acoff 7, Guðjón Pétur Lýðsson 5, Sigurður Egill Lárusson 7 – Kristinn Ingi Halldórsson 4

KR (3-4-2-1)

Stefán Logi Magnússon 5 – Skúli Jón Friðgeirsson 5, Indriði Sigurðsson 4, Aron Bjarki Jósepsson 4 (´59 Robert Sandnes 4) – Morten Beck 5, Pálmi Rafn Pálmason 4, Finnur Orri Margeirsson 6, Arnór Sveinn Aðalsteinsson 5 – Óskar Örn Hauksson 5, Kennie Chopart 6 – Tobias Thomsen 6.

Sigurbjörn: Erum ekkert að spá í liðunum í kring
Sigurbjörn og Ólafur Jóhannesson þjálfarar Vals.Vísir
Sigurbjörn Hreiðarsson aðstoðarþjálfari Vals var ánægður með stigin þrjú sem hans menn náðu í með 2-0 sigrinum á KR en sagði að KR-ingarnir hefðu verið sterkari að mörgu leyti í kvöld.

„Þeir náttúrulega byrjuðu miklu betur og voru með þetta fyrstu 15-20 mínúturnar. Þeir lokuðu á okkur og við komumst þannig lagað ekki í neinn takt. Fyrsta markið er í raun í fyrsta sinn sem við förum innfyrir, keyrðum á þá og erum með vopn til þess,“ sagði Sigurbjörn við Vísi eftir leik en vopnið sem hann talar um er líklega löng innköst Arnars Sveins Geirssonar en fyrsta markið kom einmitt eftir eitt slíkt.

„Ógnin okkar í fyrri hálfleik var að nýta styrkleika okkar sóknarmanna, við gátum skorað nokkuð mörk. Þeir gátu auðvitað gert það líka og það hefði getað verið 5-3 í hálfleik. En staðan var 2-0 og við sættum okkur vel við það,“ bætti Sigurbjörn við.

„Við hefðum viljað vera einum gír ofar í baráttu og frumkvæði. Við stóðum það af okkur í byrjun en þeir náttúrulega gátu jafnað úr víti. Það var smá punktur í því og svo fáum við færi og nýtum eitt. 2-0 staða í hálfleik var mjög góð.“

„Við bökkum síðan aðeins líkt og í FH-leiknum en munurinn var sá að nú vorum við búnir að skora fleiri mörk. Mér fannst KR-ingarnir grimmir og í raun ofan á í mörgu í dag. En við unnum leikinn og tökum það,“ bætti Sigurbjörn við og var á því að báðir vítadómarnir hefðu verið hárréttir.

„Það eru bara fjórir leikir búnir og við búnir að spila þrjá leiki heima, við viljum vinna alla leiki hér. Það er krafa sem við setjum á okkur. Auðvitað viljum við vinna útileikina líka en hér ætlum við að vera sterkir og erum það. Núna er það bara stigasöfnun og maður er ekkert að spá í einhverjum liðum í kringum sig,“ sagði Sigurbjörn Hreiðarsson að lokum.

Willum Þór: Við verðum bara betri
Willum Þór er þjálfari KR.vísir/andri marinó
Willum Þór Þórsson var nokkuð sáttur með leik KR-inga gegn Val í kvöld þó auðvitað væri hann ekki sáttur með að fara stigalaus frá Hlíðarenda.

„Mér fannst við spila feykilega vel stærstan hluta fyrri hálfleiks, þar til kannski á kafla undir lok hálfleiksins þar sem vörnin fór aðeins úr skipulagi og við vorum teknir flatir í tví- eða þrígang.“

„Þeir ná inn einu marki þar sem við héldum að Kristinn Ingi væri rangstæður, sem hann var svo sannarlega, en svo kemur seinna hlaupið og ég skal ekkert sverja fyrir það hvort Sigurður Egill hafi verið rangstæður. En við eigum auðvitað ekkert að stoppa heldur halda áfram þar til flautan gellur,“ sagði Willum Þór í samtali við Vísi að leik loknum í kvöld.

KR-liðið byrjaði mun betur en Valsmenn og hefðu vel getað skorað mörk í fyrri hálfleiknum.

„Mér fannst við eiga miklu meira inni eftir fyrri hálfleikinn en að vera 2-0 undir. Við yfirspiluðum Valsliðið fyrstu 25 mínútur leiksins og spilum feykivel, við verðum að horfa á það. Við gáfumst heldur ekki upp og höfðum trú á því allan tímann að við gætum jafnað. Ég er feykilega sáttur með spilamennskuna en þeir refsuðu okkur grimmilega því þeir eru

með frábært lið.“

Óskar Örn Hauksson misnotaði vítaspyrnu á 22.mínútu þegar hann þrumaði í stöngina og í kjölfarið tóku Valsmenn yfir og fengu nokkur góð færi.

„Það er akkúrat í kjölfarið á því sem þessi skrýtni kafli kom, sérstaklega í varnarleikinn hjá okkur. Það má vel vera að það hafi slegið okkur út af laginu. Við eigum að vera það sterkir að við náum að yfirstíga það og við gerðum það í síðari hálfleiknum.“

Willum ræddi aðeins við fjórða dómara leiksins á meðan á leiknum stóð en hann virtist vera ósáttur með það að Valsarinn Haukur Páll Sigurðsson fengi ekki gult spjald í fleiri en eitt skipti.

„Við erum í sókn og hann (Þóroddur Hjaltalín dómari) lætur leikinn halda áfram eftir brot hjá Hauki Páli og ég spyr þá einfaldlega hvort þeir ætli að gleyma honum. Mér fannst það verðskulda spjald sem hefði kannski stoppað hann í að ganga jafn vasklega fram og hann gerði í síðari hálfleik. En ég kvarta ekkert undan því að menn gangi vasklega fram,“ sagði Willum Þór.

KR-ingar eru komnir með sex stig eftir fyrstu fjórar umferðirnar, eftir sigra gegn Víkingi Ólafsvík og ÍA en töp gegn Víkingum og Val.

„Ég met stöðuna þannig að við erum að spila feykilega vel og það er góður bragur á liðinu. Við verðum bara betri,“ sagði Willum Þór að lokum.

Sigurður Egill: Sem betur fer öskraði ég nógu hátt
Valsmaðurinn Sigurður Egill Lárusson.Vísir/Eyþór
Sigurður Egill Lárusson átti fínan leik fyrir Valsmenn í dag þegar þeir lögðu KR-inga að Hlíðarenda. Hann skoraði seinna mark Valsmanna á afar mikilvægum tímapunkti undir lok fyrri hálfleiks.

„Ég er virkilega sáttur með stigin þrjú. Við byrjuðu leikinn ekki vel og þeir lokuðu á ákveðin svæði þar sem við erum hættulegir. Þegar við létum boltann ganga þá fengum við færi og nýttum tvö þeirra,“ sagði Sigurður Egill í samtali við Vísi að leik loknum.

„Það var búið að liggja svolítið á okkur og það var virkilega þægilegt að fara með 2-0 í hálfleikinn.“

Þegar Sigurður Egill skoraði var Kristinn Ingi Halldórsson einnig að hlaupa á eftir boltanum en hann var kolrangstæður en sem betur fer fyrir Valsmenn áttaði hann sig nógu snemma.

„Ég var skíthræddur um að hann myndi taka boltann. Sem betur fer náði ég að öskra nógu hátt þannig að hann lét hann vera.“

Valsmenn eru komnir með 10 stig eftir fyrstu fjórar umferðir Pepsi-deildarinnar og hafa verið að spila vel í upphafi móts.

„Mótið er bara rétt að byrja en við erum virkilega ánægðir með byrjunina og ætlum bara að halda áfram,“ sagði Sigurður Egill að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira