Erlent

Heitir Ísraelum því að Íranir muni aldrei komast yfir kjarnavopn

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Donald Trump ásamt Benjamín Netanyahu í dag.
Donald Trump ásamt Benjamín Netanyahu í dag. Vísir/EPA
Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, lofaði Benjamín Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, að Íran muni „aldrei komast yfir kjarnavopn,“ á fundi þeirra í Ísrael í dag. BBC greinir frá.

Trump fór gagnrýnum orðum um kjarnorkuvopnasamkomulag sem helstu ríki veraldar, með Bandaríkin í broddi fylkingar, gerðu við Írani árið 2015 og sagði að írönsk yfirvöld „haldi að þau geti gert það sem þeim hentar.“

Í stað þess að vera þakklátir hafi Íranir stutt hryðjuverkamenn. Trump hét Netanyahu að það myndi ekki halda áfram á hans vakt.

Íranir munu aldrei komast yfir kjarnavopn, það get ég sagt þér.

Trump lenti í Ísrael í dag en hann var nýkominn úr opinberri heimsókn í Sádí-Arabíu, þar sem hann ítrekaði mikilvægi þess að ráðamenn í múslímalöndum myndu aðstoða Bandaríkin í baráttunni við hryðjuverk.

Forsetinn hefur áður kallað eftir friðarsamkomulagi á milli Ísraelsmanna og Palestínumanna en hann hefur aldrei skilgreint nákvæmlega hvað slíkt myndi hafa í för með sér og sagt að hann myndi frekar vilja að deiluaðilar ákveði sjálfir hvernig friðarviðræðum sé háttað. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×