Erlent

Theresa May kynnir breytingar á heilbrigðisstefnu Íhaldsflokksins

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Theresa May hefur farið mikinn í kosningabaráttunni.
Theresa May hefur farið mikinn í kosningabaráttunni. Nordicphotos/AFP
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, hefur tilkynnt breytingar á stefnudrögum Íhaldsflokksins er varða heilbrigðismál þar sem nú er lagt til að þak verði lagt á gjöld sem einstaklingar þurfa að borga fyrir heilbrigðisþjónustu.

Útlistanir á stefnu Íhaldsflokksins í heilbrigðismálum fyrir komandi þingkosningar í landinu hafa verið harðlega gagnrýndar af andstæðingum flokksins en áður var lagt til að kostnaðarþáttaka sjúklinga yrði aukin án nokkurs greiðsluþaks. 

Þá hafa hugmyndirnar jafnframt mælst illa fyrir hjá kjósendum og hafa kannanir sýnt að meirihluti þeirra er á móti hugmyndum um aukna kostnaðarþáttöku sjúklinga.

May segir að tillaga um þak á gjöldin sem greidd séu fyrir heilbrigðisþjónustu „sé ekki kúvending“ heldur sé einfaldlega verið að „lagfæra stefnuna.“ May vill ekki gefa upp nákvæmlega hve hátt greiðsluþakið eigi að verða.

Hún segir að Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, hafi ekki farið með staðreyndir í gagnrýni sinni á stefnudrögin.

Síðan stefnudrögin hafa verið kynnt, hefur Jeremy Corbyn látið út úr sér rangar fullyrðingar. Það eina sem hann hefur upp á að bjóða eru rangar fullyrðingar, ótta og að ala á hræðslu kjósenda.

Corbyn hefur farið hörðum orðum um hugmyndir Íhaldsflokksins um aukna kostnaðarþáttöku sjúklinga og meðal annars sagt að um „heilabilunarskatt“ sé að ræða og vísar þar til þess að heilabilaðir munu þurfa að greiða meira fyrir heilbrigðisþjónustu nái hugmyndir Íhaldsflokksins fram að ganga. 

Hann segir að nýjustu tillögur sem May hafi lagt fram varðandi stefnudrög Íhaldsflokksins breyti í raun og veru mjög litlu hvað varðar stefnu flokksins.

May sé einfaldlega að reyna að vinna sér inn hylli kjósenda með því að þykjast hafa breytt því allra óvinsælasta í stefnudrögunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×