Erlent

Atvinnuveiðimaður varð undir særðum fíl og lést

Atli Ísleifsson skrifar
Hinn 51 árs Theunis Botha var faðir fimm barna frá Limpopo héraði í Suður-Afríku.
Hinn 51 árs Theunis Botha var faðir fimm barna frá Limpopo héraði í Suður-Afríku. facebook
Suður-afrískur atvinnuveiðimaður lést eftir að hafa orðið undir fíl sem hafði verið skotinn í þjóðgarði í Simbabve síðastliðinn föstudag.

Suður-afrískir fjölmiðlar segja fíl hafa ráðist á hóp veiðimanna sem Theunis Botha fór fyrir. Var fíllinn skotinn af öðrum veiðimönnum þegar hann lyfti Botha upp með rana sínum. Við það féll fíllinn til jarðar og Botha varð undir.

Atvikið átti sér stað í Hwange þjóðgarðinum í vesturhluta Simbabve. Um er að ræða sama garð þar sem ljónið Cecil var drepið af bandarískum veiðimanni í júlí 2015. Málið vakti gríðarlega athygli víðs vegar um heim.

Hinn 51 árs Botha var faðir fimm barna frá Limpopo héraði í Suður-Afríku. Í frétt BBC kemur fram að Botha hafi starfað sem leiðsögumaður fyrir hópa veiðimanna frá árinu 1989 eftir að hann hætti störfum í suður-afríska hernum.

Á heimasíðu hans kemur fram að hann hafi sérhæft sig í ljóna- og hlébarðaveiðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×