Lífið

Uppgötvum eigin mikilfengleik

Þórdís Lilja Gunnarsdóttir skrifar
Torfi Leósson hjá Sri Chinmoy setrinu segir hugleiðslutónlist leysa úr læðingi undursamlega orku og hjálpa áheyrendum að tengja sig betur við hjartað. Hann hvetur sem flesta til að koma og hlýða á balkönsku kvennahljómsveitina í Fríkirkjunni í kvöld.
Torfi Leósson hjá Sri Chinmoy setrinu segir hugleiðslutónlist leysa úr læðingi undursamlega orku og hjálpa áheyrendum að tengja sig betur við hjartað. Hann hvetur sem flesta til að koma og hlýða á balkönsku kvennahljómsveitina í Fríkirkjunni í kvöld. MYND/ERNIR
Balkanska kvennasveitin Blue Flower heldur fágæta hugleiðslutónleika í Fríkirkjunni í Reykjavík í kvöld. Upplifunin er slakandi, uppbyggjandi og nærir hjartað.

„Þeir sem ástunda hugleiðslu upplifa meiri hamingju og tilgang í lífinu, ásamt því að tengjast sköpunarkrafti sínum og uppgötva nýjar leiðir til sköpunar og farsældar.“

Þetta segir Torfi Leósson hjá Sri Chinmoy setrinu sem undanfarna þrjá áratugi hefur boðið upp á ókeypis námskeið í hugleiðslu. Torfi segir fáa hafa vitað hvað hugleiðsla var á fyrstu árunum en að ímyndin hafi ávallt verið jákvæð og nú sé mikil meðvitund um hugleiðslu, margir hafi prófað eða langi til að prófa.

„Hugleiðsla kyrrir hugann og maður fer að heyra betur í sjálfum sér. Það er ekki fyrr en maður prófar að íhuga að maður áttar sig á hversu merkileg manneskja maður er og hreinlega undrast hversu miklu maður býr yfir,“ segir Torfi. Til að hugleiða þurfi ekki mikið.„Í raun ekki neitt. Bara að gefa sér tíma. Aðeins þriggja mínútna þögn er stórt skref til að róa hugann. Flestir hafa upplifað ómeðvitað hugleiðsluástand en með reglulegri, kerfisbundinni æfingu kemst maður dýpra inn á við, í tengsl við eigin veru og verður færari.“

Á tímum hraða og áreitis segir Torfi að hætta sé á að mannfólkið missi af sjálfu sér og eigin ágæti. Erfitt sé að standa stöðugur í sjálfum sér þegar athyglin beinist alltaf út á við en að hugleiðsla rótfesti mann.

„Hugleiðsla hjálpar við að losa um streitu og finna innri styrk. Flestir finna hvernig stress og áhyggjur draga úr afköstum en gott mótvægi er hugleiðsla. Í kyrrð hugleiðslunnar felst styrkur og með innri frið í hjarta eykst einbeiting sjálfkrafa. Samkvæmt boðskap andlega leiðtogans Sri Chinmoy erum við öll einstök og búum yfir friði, hamingju og kærleika en þurfum að leita þess með hugleiðslu, rétt eins og að leita týnds hlutar í herbergi.“

 

Kvennahljómsveitin Blue Flower hefur leikið hugleiðslutónlist um allan heim síðastliðna tvo áratugi.
Allar samankomnar á Íslandi

Sri Chinmoy setrið stendur fyrir tónleikum balkönsku kvennasveitarinnar Blue Flower í Fríkirkjunni í Reykjavík í kvöld. Hljómsveitin heldur sömuleiðis ókeypis námskeið í hugleiðslu og tónlist í Tónskóla Sigursveins við Engjateig 1 á uppstigningardag.

„Blue Flower er skipuð ellefu konum frá Balkanskaga sem sérhæfa sig í tónlist Sri Chinmoy sem var afkastamikið tónskáld og samdi yfir 20 þúsund lög. Lögin eru einföld; flest örstuttar möntrur, samdar að indverskri hefð í andlegri tónlist. Tónlistin er róandi en í henni býr undursamlegur, undirliggjandi kraftur. Í friði liggur innri styrkur og sköpunarkraftur. Þetta er heilsubætandi tónlistarupplifun og maður kemur út fullur orku,“ lofar Torfi og segir tónleikagesti skynja vel hversu slakandi og endurnærandi hugleiðslutónlist er. „Við höfum áður haldið tónleika af svipuðu tagi og voru tónleikagestir einróma um hversu mikið tónlistin gaf þeim og hjálpaði við að komast inn í hjartað.“

Blue Flower er vel þekkt í Evrópu og Bandaríkjunum. Hún er nú á tónleika- og hugleiðsluferðalagi um Evrópu og hélt fjölmarga tónleika og námskeið í Hollandi og Belgíu í liðinni viku og í Ósló á sunnudagskvöld.

„Hljómsveitin var stofnuð í Novi Sad í Serbíu árið 1998, en þaðan er forsprakki hennar, Eshana Gadanski. Hún hefur sagt að hljómsveitin hafi orðið til þegar hljómsveitarmeðlimir kynntust tónlist Sri Chinmoy og fundu allir fyrir djúpum áhrifum hennar á líf þeirra. Tónleikar séu svo þeirra leið til að deila friði og andlegum eiginleikum tónlistarinnar með áhorfendum,“ útskýrir Torfi um Blue Flower sem útsetur tónlist Sri Chinmoy með röddum og austrænum og vestrænum hljóðfærum. „Oftast leika þær færri saman á tónleikum en vegna einlægrar löngunar til að sjá Ísland ákváðu þær að koma allar og verður hljómsveitin því fullskipuð á tónleikunum í kvöld. Hljómsveitin samanstendur af sellói, klukknaspili, gítar, píanói, indversku harmonium, flautu, trommu og bjöllum og allar sjá þær um heillandi tæran og hreinan söng.“

Að sögn Torfa getur hugleiðsla farið fram undir tónlist en líka í þögn og með því að nota einbeitingu. „Það getur verið erfitt að viðhalda einbeitingu lengi í mikilli þögn en það er hægt lengur með tónlist. Allir geta tengt við það og hafa upplifað að þegar maður er þreyttur getur tónlist verið einkar endurnærandi.“

Upptendruð upplifun

Á uppstigningardag, fimmtudaginn 25. maí, bjóða meðlimir Blue Flower upp á ókeypis námskeið í hugleiðslu og tónlist í Tónskóla Sigursveins á Engjateigi 1.

„Konurnar í hljómsveitinni ástunda allar hugleiðslu og nota til að virkja sköpunarkraft sinn í tónlist. Þær hafa ferðast um allan heim með tónleika sína og námskeið og eykst hróður þeirra jafnt og þétt. Námskeiðið er opið jafnt þeim sem hafa tónlistarlegan bakgrunn og þeim sem hafa hann ekki því hægt er að nota möntrur til að upplifa hugleiðslu og tengjast eigin sköpunarkrafti,“ útskýrir Torfi og hvetur sem flesta til að koma í Fríkirkjuna í kvöld.

„Allir eru velkomnir og ekki þarf ekki að setja sig í sérstakar hugleiðslustellingar til að njóta tónleikanna, né að þekkja hugleiðslu eða hafa bakgrunn í henni. Það þarf enga tækni til að hugleiða; það bara gerist, maður upptendrast og verður snortinn af tónlistinni, rétt eins og maður getur orðið djúpt snortinn af landslagi og náttúrufegurð.“

Tónleikarnir í Fríkirkjunni í Reykjavík í kvöld hefjast klukkan 20 og er aðgangur ókeypis. Ókeypis námskeið Blue Flower á upp­stigningardag hefst klukkan 19.30 í Tónskóla Sigursveins, Engjateigi 1. Sjá nánar á hugleidsla.org.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×