Erlent

Skutu viðvörunarskotum að dróna sem flogið var yfir landamærin

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá landamærum Suður- og Norður-Kóreu.
Frá landamærum Suður- og Norður-Kóreu. Vísir/AFP
Her Suður-Kóreu skaut viðvörunarskotum að hlut sem flogið var yfir hlutlausa beltið á milli þeirra og Norður-Kóreu. Talið er að um dróna hafi verið að ræða, en ekki liggur fyrir hvort að hann hafi verið skotinn niður eða hvort honum hafi verið flogið aftur til norðurs.

Samkvæmt AFP fréttaveitunni var um 90 skotum skotið úr vélbyssu að hlutnum.

Mikil spenna er á svæðinu eftir ítrekaðar eldflaugatilraunir Norður-Kóreu, en yfirvöld þar hafa einnig hótað að sprengja kjarnorkuvopn í tilraunaskyni. Einungis tveir daga eru frá síðasta eldflaugaskoti Norður-Kóreu.

Yfirlýst markmið þeirra er að þróa kjarnorkuvopn og eldflaugar sem geta borið slík vopn til Bandaríkjanna.

Yfirvöld í Suður-Kóreu hafa ítrekað sakað nágranna sína um að fljúga njósnadrónum yfir landamæri ríkjanna. Viðvörunarskotum var skotið að einum slíkum í fyrra og árið 2015 voru þyrla og þota send á eftir dróna sem hafði farið yfir landamærin. Þá hafa drónar sem hafa hrapað fundist margsinnis í Suður-Kóreu.

Yonhap fréttaveitan segir her Suður-Kóreu vera að fara yfir flugferil og hefur viðbúnaðarstig flugvarna ríkisins verið aukið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×