Erlent

Hryðjuverkaárásin í Manchester „hámark aumingjaskaparins“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
„Þetta er svo gjörsamlega viðurstyggilegt. Þetta er einhvers konar hámark aumingjaskaparins að ráðast gegn ungi fólki, börnum að skemmta sér,“ segir Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórmálafræði um árásina á tónleikastað í Manchester í gær.

Eiríkur Bergmann var gestur Loga Bergmanns í aukafréttatíma Stöðvar 2 vegna árásinnar sem varð 22 að bana og særði 59. Börn eru meðal þeirra sem létust í árásinni enda Ariane Grande, ein vinsælasta tónlistarkona í heimi.

Hann segir að tilgangur slíkra hryðjuverkaárása sé augljós.

„Grafa undan vestrænum samfélögum, okkar lýðræðiskerfi. Þessum opnu, frjálsu samfélögum sem byggja á mannréttindum, lýðræði, fjölbreytileika Það er tilgangurinn,“ segir Eiríkur Bergmann.

Markmiðið sé þrengja að lifnaðarháttum Vesturlandabúa.

„Verknaðurinn framinn, ekki til þess að myrða þessi tilteknu ungmenni, heldur til þess að framkalla viðbrögð í samfélaginu. Ala á óttanum og fá okkur til þess að breyta okkar lifnaðarháttum.“

Eiíkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði.Vísir/Eyþór

Ekki hægt að mæta ofbeldi með meira ofbeldi

Árásin er ein af mörgum sem framin hafa verið undanfarin ár, allt frá hryðjuverkaárásinni í París árið 2015 til árásarinnar í Stokkhólmi fyrr á árinu.

„Við lifum tíma hrynu hryðjuverka í Evrópu. Yfirleitt hafa það verið íslamistar sem hafa staðið á bak við þetta í ímynduðu stríði sínu við vesturlöndin. Við höfum séð magnandi átök á milli heimshluta af hugmyndafræðilegum toga.“

Ljóst er að Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, og Donald Trump, forseti Bandaríkjanna muni bregðast við árásinni á einhvern hátt en í ávarpi beggja í tilefni árásarinnar mátti greina þann tón að árásinni yrði hefnt, ekki síst í máli Trump.

Eiríkur varar við slíkum málflutningi og segir Vesturlöndin föst í vítahring. Svarið við ofbeldi geti aldrei verið meira ofbeldi.

„Svona hryðjuverkaárásum hefur oftar en ekki verið svarað með hernaðarinngripum þar sem annað saklaust fólk er drepið. Þegar ráðist var inn í skemmtistaðinn í París var svarað með því að herflugvélar flugu til Raqqah í Sýrlandi og sprengdu þar allt í tætlur.

Þar vaxa nú upp einhverjir krakkar sem hafa misst foreldri sína, systkini, í þeirri tilteknu árás og ala með sér hatur í garð Vesturlanda. Það birist meðal annars í hryðjuverkum í okkar heimshluta og þetta er vítahringurinn.“

Segir hann að bregðist Trump við þeim hætti sem hann hafi boðað séu það slæm tíðindi fyrir Vesturlönd.

„Forseti Bandaríkjanna brást við með því að hann talaði um að uppræta þessi öfl, hrekja þau úr löndum okkar. Ef að það yrði gert, það sem hann segir, þýðir það bara allsherjar borgarastyrjöld í vestrænum samfélögum.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×