Viðskipti innlent

Tæpar tvær milljónir fengust upp í rúmlega 100 milljóna gjaldþrot JÖR ehf.

Birgir Olgeirsson skrifar
Guðmundur Jörundsson, stofnandi Jör.
Guðmundur Jörundsson, stofnandi Jör. Vísir/Daníel
Skiptum á einkahlutafélaginu JÖR ehf. er lokið, en félagið var stofnað utan um hönnun á fatalínu Jörn og verslunarrekstur við Laugaveg 89. Tæpar tvær milljónir fengust upp í rúmlega hundrað milljóna króna gjaldþrot félagsins.

Félagið var tekið til gjaldþrotaskipta 11. janúar síðastliðinn en skiptum lauk 9. maí síðastliðinn.

Lýstar veðkröfur námu 65,3 milljónum króna. Upp í þær fengust greiddar 1,6 milljónir króna.

Skiptastjóri hafnaði lýstri veðkröfu að fjárhæð 46 milljónum króna, og varð því sú krafa að almennri kröfu að sögn skiptastjóra, sem gerði það að verkum að lýstar veðkröfur urðu í heildina 19,2 milljónir króna.

Lýstar forgangskröfur námu 13,9 milljónum króna en ekkert fékkst greitt upp í þær.

Lýstar almennar kröfur námu 24,5 milljónum króna og fékkst ekkert greitt upp í þær.

Skiptakostnaður greiddist að hluta með eignum búsins.

Félagið var rekið með 25 milljóna króna tapi árið 2015 og var eigið fé þess þá neikvætt um rétt tæpar 53 milljónir króna. Það var stofnað árið 2012 af Guðmundi Jörundssyni og Gunnari Erni Petersen.

Guðmundur sagði í samtali við Fréttablaðið í lok nóvember að fyrirtækið væri í endurskipulagningu og komið á ákveðinn byrjunarreit. Ný verslun Jör var í kjölfarið opnuð á horni Týsgötu og Skólavörðustígs. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×