Innlent

Réttarmeinafræðingur fenginn til að svara fimm spurningum í Birnumálinu

Birgir Olgeirsson skrifar
Thomas Møller Olsen við þingfestingu málsins í Héraðsdómi Reykjaness.
Thomas Møller Olsen við þingfestingu málsins í Héraðsdómi Reykjaness. vísir/vilhelm
Fyrirtaka í máli embættis héraðssaksóknara gegn Thomasi Fredrik Möller fór fram í Héraðsdómi Reykjaness í dag. Þar var tekin fyrir krafa þess efnis að þýskur réttarmeinafræðingur, Urs Oliver Wiesbrock, svari fimm spurningum verjanda Thomasar Möller og þá var sömuleiðis tekin fyrir krafa ákæruvaldsins um áframhaldandi gæsluvarðhald.

Dómari samþykkti þessa beiðni í dag en réttarmeinafræðingurinn þarf að hafa lokið mati sínu fyrir 27. júní.

Kolbrún Benediktsdóttir, varahéraðssaksóknari, lagði fyrir dóm þýðingu á sakaskrá Thomasar Möller.

Verjandi Thomasar mótmælti kröfunni um áframhaldandi gæsluvarðhald en saksóknari sagði farið fram á það út frá almannahagsmunum. Það væri eðlileg krafa og að málið hefði fengið eðlilegan málshraða.

Samþykkti dómari áframhaldandi fjögurra vikna gæsluvarðhald yfir Thomasi.

Næsta fyrirtaka í málinu verður 7. júní en þá verður frekara framhald málsins ákveðið.

Fyrir hafði Ragnar Jónsson, íslenskur bæklunarlæknir og lögfræðingur, verið dómkvaddur til að leggja mat á ástand Thomasar en niðurstaða hans á að liggja fyrir þann 16. júní næstkomandi.

Telja má líklegt að aðalmeðferð í málinu fari ekki fram fyrr en síðla sumars eða í haust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×