Enski boltinn

Defoe aftur til Bournemouth eftir sextán ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Skórnir hans Jermain Defoe eru ekkert á leiðinni upp á hillu. Hann telur sig eiga nóg eftir.
Skórnir hans Jermain Defoe eru ekkert á leiðinni upp á hillu. Hann telur sig eiga nóg eftir. Vísir/Getty
Sunderland er fallið úr ensku úrvalsdeildinni en skærasta stjarna liðsins, Jermain Defoe, mun ekki fylgja liðinu niður í ensku b-deildina.

Jermain Defoe nýtti sér klásúlu í samningi sínum nú þegar Sunderland spilar ekki lengur í ensku úrvalsdeildinni. Hann fer því á frjálsri sölu.  

Defoe hefur gert þriggja ára samning við Bournemouth sem ætti að skila honum á endanum 20 milljónum punda eða 2,6 milljörðum íslenskra króna.  Enskir miðlar eins og Guardian segja frá þessu í kvöld.

Defoe er orðinn 34 ára gamall en vill spila áfram í ensku úrvalsdeildinni enda var hann í frábæru formi í vetur. Watford og Crystal Palace höfðu líka áhuga en hann valdi að semja við Bournemouth sem endaði í 9. sæti í ensku úrvalsdeildinni í vetur.  

Jermain Defoe kom til Sunderland í janúar 2015 eftir að hafa reynt fyrir sér hjá kanadíska félaginu Toronto FC. Defoe lék í tvö og hálft tímabil með liðinu og skoraði 34 mörk í 83 deildarleikjum.

Defoe skoraði fimmtán mörk á nýloknu tímabili en það dugði ekki til að bjarga Sunderland frá falli.

Defoe er þarna að snúa aftur til Bournemouth. Hann var aðeins átján ára gamall þegar hann kom þangað á láni frá West Ham tímabilið 2000-01.  Defoe fór á kostum með liðinu og skoraði 19 mörk í 33 leikjum í ensku C-deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×