Íslenski boltinn

Fyrsta þrenna Grindvíkings í tæp fjórtán ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Andri Rúnar Bjarnason.
Andri Rúnar Bjarnason. Vísir/Andri Marinó
Andri Rúnar Bjarnason skoraði öll þrjú mörk Grindvíkinga í 3-2 sigri á ÍA á Akranesi á mánudagskvöldið en nýliðarnir urðu þar með fyrsta liðið í deildinni til að vinna tvo útileiki í sumar.

Andri Rúnar hefur heldur betur átt þátt í þeim því hann skoraði sigurmark í uppbótartíma í fyrri útisigrinum sem var á móti Víkingi í Víkinni.

Andri Rúnar varð í fyrrakvöld fyrsti Grindvíkingurinn til að skora þrennu í efstu deild í tæp fjórtán ár eða síðan að Sinisa Kekic náði því í 3-2 sigri á móti Fram 30. maí 2003.

Andri Rúnar skoraði mörkin sín á 14. mínútu, á 47. mínútu og á 88. mínútu en hann kom Grindavík í 1-0, 2-1 og 3-1 í þessum leik.

Síðastur á undan Andra til að skora þrennu á útivelli fyrir Grindavík var hins vegar Grétar Hjartarson í 5-1 sigri á Þór á Akureyri í september 2002.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×