Viðskipti innlent

Hagnaður Eimskips minnkaði á milli ára

Atli Ísleifsson skrifar
Magn í áætlunarsiglingum jókst um 3,0% og tekjur hækkuðu um 8,9 milljónir evra eða 10,7%.
Magn í áætlunarsiglingum jókst um 3,0% og tekjur hækkuðu um 8,9 milljónir evra eða 10,7%. Vísir/Ernir
Hagnaður Eimskips nam 0,2 milljón evra á fyrsta ársfjórðungi þessa árs samanborið við 1,8 milljón evra á sama tíma í fyrra. Þetta kemur fram í tilkynningu félagsins til Kauphallarinnar.

Þar segir að tekjur hafi numið 146,9 milljónum evra, hækkað um 33,7 milljónir evra eða 29,7 prósent frá fyrsta ársfjórðungi 2016.

„Magn í áætlunarsiglingum jókst um 3,0% og tekjur hækkuðu um 8,9 milljónir evra eða 10,7%. Magn í flutningsmiðlun jókst um 28,9% og tekjur hækkuðu um 24,8 milljónir evra eða 82,6%, aðallega vegna nýrra félaga.

EBITDA nam 9,3 milljónum evra, dróst saman um 0,3 milljónir evra eða 3,3% frá Q1 2016. Aðlöguð EBITDA nam 11,6 milljónum evra og jókst um 20,5% að teknu tilliti til verkfallsins á Íslandi (1,5 milljónir evra) og annarra einskiptisliða (0,8 milljónir evra),“ segir í tilkynningunni, en sjómannaverkfallið, sem stóð yfir frá 15. desember 2016 til 19. febrúar 2017, er sagt hafa haft neikvæð áhrif á flutt magn af fiski og tengdri þjónustu.

Eiginfjárhlutfall var 56,6 prósent og nettóskuldir námu 50,4 milljónum evra í lok mars.

Mun halda áfram að meta nýja kosti í fjárfestingum

Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskips, segir að félagið vinni áfram að innri vexti og kaupum á fyrirtækjum sem falli að starfsemi félagsins og auki virði þess.

„Félagið mun því halda áfram að meta nýja kosti í fjárfestingum á fyrirtækjum og skipum.

Fyrsti ársfjórðungur var í samræmi við væntingar okkar eins og kynnt var við útgáfu ársuppgjörs 2016 í febrúar, þar með talið áætluð áhrif sjómannaverkfallsins hér á landi. Fyrsti ársfjórðungur er venjulega sá fjórðungur sem skilar lægstri framlegð í rekstri félagsins. Afkomuspá Eimskips fyrir árið 2017 er óbreytt frá því sem kynnt var í febrúar og er EBITDA á bilinu 57 til 63 milljónir evra,“ segir Gylfi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×