Innlent

Nefndin ætlar ekki að tvívinna það sem hefur þegar verið gert

Sæunn Gísladóttir skrifar
Ásgeir Jónsson hagfræðingur er í forsvari fyrir nefndina.
Ásgeir Jónsson hagfræðingur er í forsvari fyrir nefndina. vísir/gva
Verkefnisstjórnin sem skipuð var í tengslum við endurmat peningastefnunefndar í mars er þegar byrjuð að funda með samráðs- og hagsmunaaðilum. Þetta staðfestir Ásgeir Jónsson hagfræðingur sem er í forsvari fyrir nefndina.

Nefndin á að skila af sér tillögum í lok árs. „Við höfum þegar hafið samráðsferlið. Svo er verið að leita að erlendum sérfræðingum til þess að fara yfir íslensku peningastefnuna og skoða ýmsa möguleika,“ segir Ásgeir. „Í framhaldi munum við efna til umræðu um þessi mál með því að skipuleggja ráðstefnur og morgunfundi.“

Hann segir að nefndin muni síðan skila skýrslu og leggja fram tillögur. „Það hefur margt verið skrifað um íslenska peningastefnu. Þar bendi ég t.d. á ágæta skýrslu Seðlabankans frá 2012 um valkosti Íslands í gjaldmiðils- og gengismálum. Við ætlum ekki að fara að tvívinna það sem þegar hefur verið gert heldur reyna að setja þessi mál í greinargott samhengi og leggja fram skýrar tillögur.“

Ásgeir segist ekki geta sagt til um hversu róttækar tillögur nefndarinnar verði. Fréttablaðið greindi frá í gær að ekki yrði þrýst á nefndina að skila fyrr þrátt fyrir hörð viðbrögð forsvarsmanna atvinnulífsins við styrkingu krónunnar.

„Krónan hefur nú verið að styrkjast í rúm tvö ár samfleytt. Það er bæði afleiðing núverandi peningastefnu sem og góðrar efnahagsstöðu landsins. Verkefnisstjórnin horfir til framtíðar og vart er hægt að búast við því að hún komi með tillögur í flýti vegna ástands sem ef til vill er aðeins tímabundið,“ segir Ásgeir. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×