Körfubolti

Irving og LeBron í ham er Cleveland komst í 3-1 | Myndbönd

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Clevaland Cavaliers komst í nótt í 3-1 í einvíginu á móti Boston Celtics í úrslitum austurdeildar NBA þegar liðið vann leik fjögur á útivelli, 112-99.

Boston var tíu stigum yfir í hálfleik, 57-47, en meistarar Cleveland settu í gírinn í seinni hálfleik og settu niður ríflega 70 prósent skota sinna. Frábær skotnýting.

Kyrie Irving, leikstjórnandi gestanna, var manna bestur í nótt en hann skoraði 42 stig og setti niður fjórar þriggja stiga körfur í sjö skotum. Hann hefur aldrei áður skorað jafnmörg stig í einum leik í úrslitakeppninni.

LeBron James skoraði 34 stig og Kevin Love skoraði 17 stig og tók 17 fráköst. Saman skoraði þríeykið magnaða 93 af 112 stigum Cleveland.

Boston, sem er að spila án síns besta manns, Isaiah Thomas, gaf meisturunum alvöru leik en stigahæstur heimamanna var Avery Bradley sem skoraði 19 stig en Jae Crowder kom þar næstur með 18 stig.

LeBron James lenti í villuvandræðum undir lokin en þá tók Irving til sinna ráða. Hann skoraði 19 stig á innan við fimm mínútum í seinni hálfleik og í heildina 33 stig á 19 mínútna kafla.

„Strákurinn er einstakur. Ég var bara ánægður að setjast niður og fylgjast með honum. Hann var fæddur fyrir þessar stundir,“ sagði LeBron James eftir leikinn.

Clevaland getur með sigri á heimavelli í leik fimm tryggt sér sigur í einvíginu og komist í lokaúrslitin á móti Golden State Warriors sem bíður sigurvegara austursins eftir 4-0 sópun á San Antonio Spurs.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×