Innlent

Grunaður um að hafa ógnað þremur mönnum með skrúfjárni

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Það kennir ýmissa grasa í dagbók lögreglu þennan morguninn.
Það kennir ýmissa grasa í dagbók lögreglu þennan morguninn. vísir/eyþór
Rétt rúmlega hálftvö í nótt handtók lögreglan mann í annarlegu ástandi við Grensásveg. Er hann sagður hafa ógnað þremur ungum mönnum með skrúfjárni og er hann grunaður um brot á vopnalögum, hótanir, vörslu fíkniefna og fleira. Hann var vistaður í fangageymslu vegna rannsóknar málsins.

Þá voru tveir menn handteknir um tvöleytið við Sundahöfn grunaðir um húsbrot þar sem þeir komust inn á lokað athafnasvæði hjá Eimskip. Mennirnir voru vistaðir í fangageymslu fyrir rannsókn málsins.

Rétt fyrir klukkan þrjú var svo maður handtekinn við Álagranda þar sem hann var með ónæði. Hann var vistaður í fangageymslu sökum ástands.

Maður var svo handtekinn í gærkvöldi, rétt fyrir klukkan tíu, á heimili í Grafarvogi þar sem hann er grunaður um hótanir og eignaspjöll. Hann var vistaður í fangageymslu fyrir rannsókn málsins.

Tveir ökumenn voru teknir grunaðir um akstur undir áhrifum fíkniefna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×