Erlent

Umsátrið í Sydney: Lögreglan sögð hafa brugðist of seint við

Samúel Karl Ólason skrifar
Lögregluþjónar reyna að ná sambandi við gísl og segja honum að hlaupa út. Sem hann svo gerði og slapp gíslinn.
Lögregluþjónar reyna að ná sambandi við gísl og segja honum að hlaupa út. Sem hann svo gerði og slapp gíslinn. Vísir/AFP
Lögreglan í Ástralíu var of lengi að ráðast til atlögu gegn gíslatökumanni sem hélt fólki í gíslingu á kaffihúsi í Sydney árið 2014. Þetta er niðurstaða sérstakar rannsóknar dánardómstjóra á atvikinu en þrír létu lífið að meðtöldum árásarmanninum sem hét Man Haron Monis. Hann hafði lýst yfir hollustu við Íslamska ríkið.

Monis tók sautján manns í gíslingu á Lindt Chocolate kaffihúsinu og neyddi þau til þess að lesa upp kröfur hans fyrir myndbandsupptökur. Eftir um sextán klukkustunda umsátur neyddi Monis gíslinn Tori Johnson á hnéin og hleypti af viðvörunarskoti og segir dánardómsstjórinn Michael Barnes að lögreglan hefði átt að ráðast inn á kaffihúsið um leið og það gerðist.

Lögreglan gerði það hins vegar ekki fyrr en um tíu mínútum seinna, en þá hafði Monis myrt Tori Johnson. Johnson mun hafa reynt að afvopna Monis þegar hann dó. Katrina Dawson lét einnig lífið í gíslatökunni, en hún varð fyrir brotum úr byssukúlu lögregluþjóns. Eitt brotið lenti í öxl hennar og annað í hjartanu.

Þá setur Barnes út á stefnu lögreglunnar í málum sem þessum. Stefnan sú kallast contain and negotiate, eða einangra og semja. Barnes segir þá stefnu hafa verið rétta í byrjun, en að lögreglan hafi ekki áttað sig á ógninni sem stafaði af Monis og að samningaviðræður voru ekki að fara að nást.

Hann gagnrýndi einnig að leyniskyttur lögreglunnar hefðu ekki skotið Monis til bana þegar færi gafst. Þrjár leyniskyttur voru umhverfis kaffihúsið. Skytturnar sjálfar og yfirmenn þeirra töldu hins vegar að þeir hefðu ekki lagalegan rétt á því að skjóta Monis án þess að ógnaði lífi gíslanna beint.

Dánardómsstjórinn segir það vera óþarfa takmörkun á valdi þeirra og vanmat á þeirri ógn sem stafaði af Monis.

Ekki lögreglunni að kenna

Barnes tók þá skýrt fram í niðurstöðum sínum, samkvæmt ABC í Ástralíu, að það væri Monis að kenna að fólk hefði dáið. Ekki lögreglunni.

Jafnvel þó allar aðgerðir lögreglunnar hefðu farið á besta veg væri ekki hægt að alhæfa að niðurstaðan hefði verið betri. Að fleiri gíslar hefðu yfirgefið kaffihúsið á lífi.

Þegar Monis tók fólk í gíslingu, gekk hann laus á tryggingu og beið réttarhalda vegna 46 brota sem hann hafði verið sakaður um. Þar á meðal var hann sakaður um að vera meðsekur í morði fyrrverandi eiginkonu sinnar.

Barnes segir saksóknara ekki hafa gert nóg til að tryggja að Monis gengi ekki laus. Þá var Monis ekki á lista yfirvalda yfir mögulega hryðjuverkamenn. Skömmu eftir árásina hét Tony Abbott, þáverandi forsætisráðherra Ástralíu að kannað yrði í þaula af hverju Monis hefði gengið laus.

Óttuðust sprengjuhótanir

Fyrir sitt leyti segir Mick Fuller, yfirmaður lögreglunnar í Nýja Suður-Wales, að Barnes hafi rétt fyrir sér. Þeir hefðu átt að ráðast gegn Monis fyrr og ekki bíða eftir því að Tori Johnson var skotinn til bana.

Monis hafði þá sagt lögreglunni að hann væri með sprengju, sem dró úr vilja lögreglunnar til að ráðast til atlögu gegn honum. Leiðtogi sérsveitar lögreglunnar hafði beðið yfirmenn sína um leyfi til að ráðast til atlögu og bjarga gíslunum en yfirmenn lögreglunnar neituðu.

Við yfirheyrslur sagði sá sem stjórnaði aðgerðum á vettvangi í lok gíslatökunnar að hann hafi búist við því að þegar hann skipaði mönnum sínum að ráðast til atlögu að enginn þeirra myndi snúa aftur og að allir gíslarnir myndu einnig deyja í sprengingu.

Fuller segir að hann muni breyta vinnureglum lögreglunnar og að meira afli verið beytt í framtíðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×