Fótbolti

Matthías kom inná fyrir Bendtner og var ekki lengi að skora

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Matthías Vilhjálmsson og Nicklas Bendtner.
Matthías Vilhjálmsson og Nicklas Bendtner. Vísir/Samsett/Getty
Matthías Vilhjálmsson skoraði tvö mörk í 9-1 stórsigri Rosenborg á Tynset í 2. umferð norsku bikarkeppninnar í fótbolta í kvöld en þetta eru 64 liða úrslit keppninnar.

Matthías byrjaði leikinn á bekknum en var ekki lengi að stimpla sig inn þegar hann fékk tækifærið. Hann er nú kominn með fjögur mörk í norska bikarnum á tímabilinu.

Matthías kom inná sem varamaður fyrir Nicklas Bendtner í hálfleik og var búinn að skora á innan við tveimur mínútum.

Matthías var þá á réttum stað í markteignum eftir fyrirgjöf frá Milan Jevtovic fyrir markið og átti ekki í miklum vandræðum með að skora. Matthías kom Rosenborg þarna í 3-0 en liðið hafði skorað tvö mörk í fyrri hálfleiknum.

Milan Jevtovic skoraði það fyrra en Birger Meling það síðara. Nicklas Bendtner komst hinsvegar ekki á blað.

Matthías átti einnig þátt í fjórða marki Rosenborg-liðsins. Matthías lagði þá upp færi fyrir Jevtovic en skotið var varið og Tore Reginiussen fylgdi síðan eftir og kom Rosenborg í 4-0.

Anders Konradsen skoraði síðan fimmta markið og voru þá komin þrjú mörk á fyrstu tuttugu mínútum eftir að Matthías kom inná völlinn.

Leikmenn Rosenborg bætti síðan við fjórum mörkum í lokin. Heimamenn minnkuðu muninn í 7-1 en niðurstaðan var 9-1 risasigur Rosenborg á þriðjudeildarliðinu.

Matthías átti þátt í undirbúningi sjöunda marksins og skoraði síðan sjálfu áttunda mark Rosenborg í leiknum. Hann skoraði þá aftur eftir sendingu frá Milan Jevtovic.

Matthías skoraði bæði mörk í 2-0 sigri Rosenborg á Strindheim í fyrstu umferð bikarsins og er því heldur betur á skotskónum í bikarkeppninni í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×