Viðskipti innlent

Sterkt gengi breyti ekki áætlunum

Sæunn Gísladóttir skrifar
Haukur Hafsteinsson, framkvæmdastjóri LSR.
Haukur Hafsteinsson, framkvæmdastjóri LSR. vísir/valli
„Erlendar fjárfestingar hjá LSR eru að mestu í takt við þá áætlun sem við lögðum upp með í upphafi árs,“ segir Haukur Hafsteinsson, framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR).

Gengi krónunnar hefur styrkst verulega gegn erlendum gjaldmiðlum á síðustu mánuðum, samtímis því að lífeyrissjóðir landsins hafa litið til þess að auka umsvif sín erlendis.

„Styrking krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum getur haft þau áhrif að erlend verðbréfakaup verða hagstæðari en ella. Það fást fleiri evrur eða bandarískir dollarar fyrir krónuna þegar hún er sterk. Styrkingin hefur því ekki þau áhrif að við fjárfestum lægra hlutfalli í erlendum eignum en við áttum von á í upphafi árs,“ segir Haukur.

Hjá Gildi lífeyrissjóði verður einnig fylgt fjárfestingaráætlun erlendis en jafnvel er í kortunum að auka fjárfestinguna erlendis umfram áætlun vegna gengis krónunnar. „Við höfum verið að leggja aukna áherslu á erlendar fjárfestingar eftir afnám hafta. Við sjáum fyrir okkur að auka enn frekar við erlendar fjárfestingar í framtíðinni,“ segir Davíð Rúdólfsson, forstöðumaður eignastýringar og staðgengill framkvæmdastjóra.

„Styrking krónunnar gerir það að verkum að erlendar eignir vega hlutfallslega minna af eignasafni sjóðsins. Eftir því sem krónan styrkist, þá má gera ráð fyrir því að við aukum við erlendar fjárfestingar. Það verður sífellt álitlegri kostur. Hversu hratt það gerist verður hins vegar tíminn að leiða í ljós. Þar skipta aðstæður hverju sinni höfuðmáli, bæði staða krónunnar og staðan á mörkuðum. Langtímamarkmiðið er til lengri tíma að ná fram aukinni áhættudreifingu með aukinni fjárfestingu erlendis,“ segir Davíð. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×