Erlent

Árásarmaðurinn í Manchester sagður ótrúlega heilaþveginn

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Gríðarleg sorg ríkir í Manchesterborg vegna árásarinnar.
Gríðarleg sorg ríkir í Manchesterborg vegna árásarinnar. vísir/epa
Salman Abedi, maðurinn sem myrti 22 gesti á leið út af tónleikum Ariönu Grande í Manchester í vikunni, virtist ekki hafa neitt illt í hyggju þegar líbískur kunningi hans hitti hann fyrir tæpum mánuði.

„Ég held hann hafi verið alveg ótrúlega heilaþveginn,“ sagði maðurinn í viðtali við Radio 4 á Englandi í gær en ISIS hafa lýst yfir ábyrgð á árásinni.

Viðbúnaður um gjörvallt Bretland er gríðarlegur í kjölfar árásarinnar. Vígbúnir hermenn hjálpa nú lögreglu við að tryggja öryggi á almennum vettvangi.

Lögregla handtók í gær sex manns, sem grunaðir eru um að tengjast árásinni. Samkvæmt tilkynningu lögreglu er um að ræða skipulagðan hóp. Þá voru faðir og bróðir árásarmannsins handteknir í Líbíu í gær, en þaðan er Abedi ættaður.

„Árásin var fágaðri en þær sem við höfum séð hingað til og það virðist líklegt að árásarmaðurinn hafi ekki verið einn að verki,“ sagði Amber Rudd, innanríkisráðherra Bretlands, í gær.

Frank Gardner, öryggismálagreinandi BBC, hélt því fram að lögregla teldi að Abedi hefði verið burðardýr. Honum hefði verið falið að sprengja sprengju sem einhver annar bjó til.

The New York Times greindi frá því að sprengjan hefði verið einkar aflmikil og málmhlutum, til að mynda hefði nöglum og skrúfum, verið komið fyrir í henni til að valda sem mestum skaða. Þá fann lögregla einnig hlut sem talinn er vera kveikibúnaður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×