Erlent

Ben Carson segir fátækt „hugarástand“

Kristín Ólafsdóttir skrifar
„Þú verður að innræta barni þínu þankagang sigurvegara,“ sagði Ben Carson í útvarpsviðtali í gær.
„Þú verður að innræta barni þínu þankagang sigurvegara,“ sagði Ben Carson í útvarpsviðtali í gær. Vísir/AFP
Ben Carson, húsnæðismálaráðherra Bandaríkjanna, sagði í útvarpsviðtali í gær að fátækt mætti rekja til ákveðins „hugarástands.“ CNN greinir frá.

„Ég held að fátækt sé að miku leyti líka hugarástand,“ sagði Carson í viðtali við bandarísku útvarpsstöðina SiriusXM. „Ef þú ert með einhvern sem er í réttu hugarástandi, þá geturðu tekið allt í burtu frá viðkomandi og sett hann út á götu, og ég fullvissa þig um að eftir nokkurn tíma verður hann aftur á toppnum. Og ef þú ert með einhvern í röngu hugarástandi, gætirðu gefið honum öll auðæfi í heimi, og hann myndi vinna sér leið aftur á botninn.“

Ben Carson, sem bauð sig fram í forvali repúblikanaflokksins til embættis forseta Bandaríkjanna á síðasta ári, sagði jafnframt að foreldrar gætu kennt börnum sínum ákveðinn hugsunarhátt og myndu þannig forða þeim frá fátækt.

„Þetta byggir margt á því hvað við kennum börnunum,“ sagði hann. „Þú verður að innræta barni þínu þankagang sigurvegara.“

Húsnæðismálaráðherrann hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir þessi ummæli sín en margir vilja meina að fátækt sé ekki spurning um dugnað og eljusemi heldur sé hún kerfisbundið vandamál. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Carson lætur út úr sér umdeild ummæli en fyrr á árinu líkti hann flóttamönnum við þræla. Þá vakti hann einnig athygli fyrir ummæli sín um píramídana í Eygptalandi árið 2015, sem hann sagði hafa verið notaða sem geymslur undir korn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×