Erlent

Trump sagður hafa áhyggjur af áhrifum Brexit

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. vísir/getty
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, er sagður hafa lýst yfir áhyggjum sínum af útgöngu Breta úr Evrópusambandinu og áhrifum þess fyrir bandarísk störf á fundi sínum með forsvarsmönnum Evrópusambandsins í Brussel í dag. Forsetinn er þar staddur í tilefni af leiðtogafundi NATO. Guardian greinir frá.

Trump átti 45 mínútna fund með Donald Tusk og Jean Claude Juncker, forseta leiðtogaráðs Evrópusambandsins og forseta framkvæmdastjórnar sambandsins. Ef satt reynist eru ummæli Trump algjör viðsnúningur en forsetinn studdi Brexit með ráðum og dáðum á sínum tíma.

Þá tók forsetinn meðal annars við Nigel Farage í heimsókn, einum heitasta stuðningsmanni Brexit og fyrrverandi formanni UKIP og studdi Farage hann í kosningabaráttunni

Forsetinn er ekki þekktur fyrir staðfestu sína er kemur að utanríkismálum en eins og alkunna er ákvað hann að skipa Bandaríkjaher að skjóta eldflaugum á herlið Bashar al-Assad Sýrlandsforseta eftir efnavopnaárás hersins á almenna borgara en áður hafði hann talað gegn aðgerðum gegn forsetanum. 

Margir stuðningsmenn forsetans urðu fyrir vonbrigðum með hann vegna þeirrar ákvörðunar og þar á meðal var Nigel Farage. 

Forsvarsmenn Evrópusambandsins róa nú að því öllum árum að hefja viðræður við Bandaríkin að gerð fríverslunarsamnings og er jafnvel talið að sambandið geti orðið fyrr til að gera slíkan samning við Bandaríkin heldur en Bretland.

Samningaviðræður Evrópusambandsins og Bretlands vegna Brexit hefjast í næsta mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×