Fótbolti

Arnór Ingvi kom inná og skoraði mikilvægt mark

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arnór Ingvi Traustason í leik með Rapid Vín.
Arnór Ingvi Traustason í leik með Rapid Vín. Vísir/Getty
Arnór Ingvi Traustason skoraði eitt marka Rapid Vín liðsins í 3-1 útisigri á Mattersburg í austurrísku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag.  

Liðin voru jöfn að stigum fyrir leikinn en Rapid tryggði stöðu sína í sjötta sæti deildarinnar með þessum góða sigri.

Arnór Ingvi byrjaði á bekknum en kom inná sem varamaður á 66. mínútu leiksins þegar staðan var 1-1.

Arnór kom Rapid síðan í 2-1 á 84. mínútu með góðu skoti eftir að hafa fengið stoðsendingu frá þýska miðjumanninum Steffen Hofmann en Hofmann er fyrirliði Rapid-liðsins.

Síðasta mark Rapid í leiknum var síðan sjálfsmark hjá leikmanni Mattersburg. Rapid

Þetta var fyrsta mark Arnórs Ingva í deildinni síðan hann skoraði á móti SKN St. Pölten í byrjun desember. Arnór Ingvi hefur nú skorað þrjú mörk í austurísku deildinni á tímabilinu.

Arnór Ingvi er að koma til baka eftir hnémeiðsli og því mikilvægt fyrir strákinn að stimpla sig aftur inn ekki síst ætli hann sér að halda sæti sínu í íslenska landsliðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×