Fótbolti

Hrun í lokin hjá Hirti og félögum í bikarúrslitaleiknum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hjörtur Hermannsson.
Hjörtur Hermannsson. Vísir/Getty
Hjörtur Hermannsson og félagar hans í Bröndby töpuðu í dag bikarúrslitaleiknum í Danmörku.

Bröndby varð að sætta sig við 3-1 tap á móti nágrönnum sínum í FC Kaupamannahöfn en leikurinn fór fram á Parken-leikvanginum í Kaupmannahöfn. Öll mörkin komu í seinni hálfleiknum.

Staðan var 1-1 í leiknum þegar átta mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma en FC Kaupamannahöfn skoraði þá tvö mörk á þremur mínútunum og gerði út um leikinn.

Andreas Cornelius, fyrrum leikmaður Cardiff City, var hetja FCK í leiknum en hann skoraði tvö marka liðsins, kom liðinu í 1-0 og í 3-1.

Paragvæmaðurinn Federico Santander kom FCK aftur yfir í leiknum eftir að Finninn Teemu Pukki hafði jafnað metin fyrir Bröndby.

Þetta var fyrsti bikarúrslitaleikur Bröndby í níu ár eða síðan liðið vann bikarinn í sjötta sinn árið 2008.

Hjörtur Hermannsson spilaði allar 90 mínúturnar í miðri vörn Bröndby-liðsins en liðið spilar með fjögurra manna vörn.

FC Kaupmannahöfn var að vinna danska bikarinn þriðja árið í röð og í áttunda skiptið frá upphafi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×