Erlent

Trump segir rannsókn á upplýsingalekanum nauðsynlega

Erna Agnes Sigurgeirsdóttir skrifar
Donald Trump segir upplýsingalekann valda sér áhyggjum.
Donald Trump segir upplýsingalekann valda sér áhyggjum. Vísir/EPA
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, segir að upplýsingaleki til bandarískra fréttamiðla varðandi hryðjuverkaárásina í Manchester valdi honum áhyggjum og hefur hann fyrirskipað rannsókn á vegum Dómsmálaráðuneytisins þar sem reynt verður að finna út úr því hver beri ábyrgð á lekanum. Um er að ræða myndir sem birtust í New York Times af slysstað sem og nafn árásarmannsins.

Bresk yfirvöld tóku ákvörðun um að stöðva upplýsingaflæði á milli landanna tveggja í ljósi þessa leka og hefur Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, lagt áherslu á að allar upplýsingar sem deilt sé á milli landanna tveggja verði að vera tryggðar og öruggar til að samstarfið gangi upp. Banninu verði ekki aflétt fyrr en tryggt sé að þess konar leki eigi sér ekki stað aftur. Bresk yfirvöld telja þó að lekinn hafi ekki stofnað rannsókninni í hættu. 

Traust samband  

Ákvörðun yfirvalda í Bretlandi að stöðva upplýsingaflæðið til bandarískra yfirvalda er hliðarskref í samskiptum á milli landanna en mikið hefur verið lagt upp úr því undanfarið að sérstakt og traust samband ríki þeirra á milli. Þessi ákvörðun er því á skjön við þær yfirlýsingar og ljóst er að trúnaðarbrestur hefur orðið.

Þetta er ekki í fyrsta skipti í þessum mánuði þar sem leynilegum upplýsingum hefur verið lekið af völdum bandarískra yfirvalda en nýlega átti forsetinn sjálfur þátt í því að deila viðkvæmum upplýsingum um ástandið í Sýrlandi með utanríkisráðherra Rússlands.


Tengdar fréttir

Lögregla í Manchester lokar á Bandaríkin

Lögregluyfirvöld í Manchester hafa hætt að veita bandarískum yfirvöldum upplýsingar um rannsókn hryðjuverkaárásarinnar þar í borg eftir að þeim var lekið í fjölmiðla.

Trump vill að bandamenn sínir borgi

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, tjáði aðildarríkjum Atlantshafsbandalagsins á fundi í dag að þau þyrftu að borga sinn skerf af framlögum til varnarmála. Hann talaði einnig um hryðjuverkaógnina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×