Erlent

Ivanka taldi fótboltamann vera dýrðling

Erna Agnes Sigurgeirsdóttir skrifar
Fótboltamaðurinn Giorgio Chinaglia lætur ljós sitt skína.
Fótboltamaðurinn Giorgio Chinaglia lætur ljós sitt skína. Vísir/Getty
Ivanka Trump, dóttir og ráðgjafi Donalds Trumps forseta Bandaríkjanna, gerði vandræðaleg mistök á dögunum þegar hún taldi mynd af ítölsku fótboltastjörnunni Giorgio Chinaglia, fyrrverandi liðsmanni Lazio, vera mynd af kaþólskum dýrðlingi. Atvikið átti sér stað á ítölskum veitingastað í Róm þegar Ivanka og maður hennar gerðu sér glaðan dag. Guardian greinir frá.

Ivanka á að hafa spurt hvaða dýrðlingur þetta hafi verið og bent á mynd af fótboltastjörnunni sem hékk á vegg veitingastaðarins. Myndin sýndi Chinaglia standa á fótboltavelli og hendur hans vísuðu upp til himna. Ivönku til varnar þá var myndin að vísu staðsett inn á milli helgimynda af Padre Pio og krossmarki Krists.

„Við útskýrðum fyrir henni að þetta væri í rauninni ekki dýrðlingur heldur einn af leikmönnum Lazio fótboltaliðsins,“ segir Luigina Pantalone, einn eigandi veitingastaðarins.

Fótboltagoðsögnin lést 65 ára að aldri árið 2012 úr hjartaáfalli. Hann var dáður um heim allan og spilaði með mönnum á borð við Pelé og Franz Beckenbauer.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×