Innlent

Heimasaumuðu pokarnir minnka plastpokanotkun

Benedikt Bóas skrifar
Saumakonur á Hornafirði hafa saumað innkaupapoka úr gömlum bolum undir forystu Guðrúnar Ásdísar, hugsjónakonu og umhverfissinna.
Saumakonur á Hornafirði hafa saumað innkaupapoka úr gömlum bolum undir forystu Guðrúnar Ásdísar, hugsjónakonu og umhverfissinna. Mynd/Guðrún Ásdís
Sala á plastpokum í verslun Nettó á Hornafirði dróst saman um 20 prósent á fyrstu þremur mánuðum ársins samanborið við sama tímabil í fyrra. Ástæðan er svokallaðir bolapokar sem konur á svæðinu hafa saumað og standa viðskiptavinum Nettó til boða gjaldfrjálst.

Framtakssamar konur á Hornafirði, með Guðrúnu Ásdísi Sturlaugsdóttur í fararbroddi, hafi staðið fyrir því undanfarið eitt og hálft ár að sauma fjölnota poka úr gömlum bolum. Markmiðið er að gera Hornafjörð að plastpokalausum bæ. Var sérstakri bolapokakörfu komið fyrir við inngang verslunarinnar og viðskiptavinum boðinn sá valkostur að taka sér poka.

„Við höfum minnkað plastpoka­notkun um 26,6 prósent í öllum Nettóverslunum síðan 2010,“ segir Gunnar Egill Sigurðsson, framkvæmdastjóri verslunarsviðs Samkaupa, sem fagnar umræddum samdrætti í pokasölu. Slíkt samræmist umhverfisstefnu fyrirtækisins.

„Íslendingar nota um 35 milljónir plastpoka á ári og hver þeirra er aðeins notaður í 25 mínútur í heildina,“ segir Gunnar.

Hann bendir á að samdrátturinn á Höfn og í verslunum Nettó almennt, sé hvatning til áframhaldandi umhverfisvakningar, en Samkaup hafi í fyrra hent 35 tonnum minna af sorpi en árið á undan. Markmið ársins sé að minnka sorp enn frekar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×