Íslenski boltinn

Margrét Lára með „Roger Milla“ mark og Valskonur upp í efri hlutann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Margrét Lára Viðarsdóttir var með mark og stoðsendingu en hún var ekki sátt við að vera tekin af velli á 56. mínútu.
Margrét Lára Viðarsdóttir var með mark og stoðsendingu en hún var ekki sátt við að vera tekin af velli á 56. mínútu. Vísir/Stefán
Valskonur eru eitthvað að rétta út kútnum eftir erfiða byrjun í Pepsi-deild kvenna í fótbolta í sumar.

Valsliðið vann 5-1heimasigur á Grindavík í gær og komst fyrir vikið upp í efri hlutann. Valur hoppaði upp fyrir FH og í fimmta sætið. Valsliðið tapaði þremur af fyrstu fjórum leikjum sínum en vann nú annan leikinn í röð.

Margrét Lára Viðarsdóttir skoraði eitt marka Valsliðsins og er þetta í fyrsta sinn í sumar sem hún skorar í tveimur leikjum í röð en hún skoraði einnig í sigrinum á Fylki á dögunum.

Arna Sif Ásgrímsdóttir kom Val í 1-0 á 19. mínútu eftir stoðsendingu Vesnu Elísu Smiljkovic og Margrét Lára Viðarsdóttir kom Valsliðinu 2-0 tólf mínútum síðar eftir að hafa stolið boltanum af markverðinum Emma Higgins eins og Kamerúnmaðurinn Roger Milla gerði á HM á Ítalíu 1990.

Það var síðan mikið fjör í lok fyrri hálfleiks. Sara Hrund Helgadóttir minnkaði fyrst muninn í 2-1 með marki úr vítaspyrnu en Málfríður Erna Sigurðardóttir kom svo Val í 3-1 skömmu síðar eftir aukaspyrnu frá Vesnu.

Elín Metta Jensen bætti við fjórða markinu eftir aðeins fimm mínútna leik í seinni hálfleik en hún hefur nú skorað í þremur leikjum í röð. Þetta mark skoraði hún eftir stoðsendingu frá Margréti Láru Viðarsdóttur.

Ariana Calderon kom Val í 5-1 á 77. mínútu með skalla eftir að Arna Sif Ásgrímsdóttir hafi skallað hornspyrnu Hrafnhildar Hauksdóttur aftur fyrir markið.

Upplýsingar um markaskor og gang leiksins eru fengnar frá fótbolti.net.

Stefán Karlsson, ljósmyndari Vísis og Fréttablaðsins, var á leiknum á Valsvellinum í kvöld og náði þessum skemmtilegu myndum hér fyrir neðan.

Vísir/Stefán
Vísir/Stefán
Vísir/Stefán
Vísir/Stefán
Vísir/Stefán
Vísir/Stefán
Vísir/Stefán
Vísir/Stefán



Fleiri fréttir

Sjá meira


×