Íslenski boltinn

Fyrsta þrennan hjá stelpunum í sumar var fullkomin þrenna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Berglind Björg Þorvaldsdóttir skoraði þrjú af sex mörkum Breiðabliks í stórsigrinum á KR á Kópavogsvellinum í gærkvöldi.

Mörkin hennar þrjú komu á 34 mínútna kafla frá 29. mínútu til 63. mínútu. Berglind kom Blikum í 2-0, 5-0 og 6-0.

Berglind Björg náði svokallaðri fullkomu þrennu í Smáranum í gær því hún skoraði mörkin sín þrjú með vinstri fæti, hægri fæti og höfðinu.

Fyrsta markið skoraði Berglind Björg með skalla á 29. mínútu eftir hornspyrnu Fanndísar Friðriksdóttur.

Annað markið skoraði Berglind á 56. mínútu með viðstöðulausu vinstri fótarskoti rétt utan markteigs eftir fyrirgjöf Samönthu Jane Lofton.

Þriðja markið skorað Berglind síðan á 63. mínútu eftir að hafa brotist inn í teiginn og skorað með hnitmiðaðu hægri fótar skoti.

Berglind átti einnig stoðsendingu á Fanndísi Friðriksdóttur í þriðja marki Blika og kom hún því með beinum hætti að fjórum af sex mörkum Blika í leiknum.

Berglind Björg hefur nú skorað fimm mörk í fyrstu sex umferðum Pepsi-deildar kvenna en hún kom Breiðabliki líka í 1-0 í sigurleikjunum á Val og Fylki.

Það er hægt að sjá mörkin úr leiknum í spilaranum hér fyrir ofan. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×