Fótbolti

Skoraði tvisvar á móti Íslandi á dögunum og spilar hér eftir með Arsenal

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vivianne Miedema býr sig undir það að skora á móti Íslandi í apríl.
Vivianne Miedema býr sig undir það að skora á móti Íslandi í apríl. Vísir/Getty
Einn efnilegasti framherji kvennafótboltans Evrópu hefur fundið sér nýtt lið fyrir næsta tímabil.

Enska úrvalsdeildarliðið Arsenal hefur nefnilega samið við hina tvítugu Vivianne Miedema sem spilaði áður með Bayern München.

Miedema var búin að spila í þrjú tímabil með Bayern og varð þýskur meistari á þeim tveimur fyrstu. Hún skoraði 14 mörk í 22 leikjum á síðustu leiktíð en liðið varð að sætta sig við annað sætið á eftir Söru Björk Gunnarsdóttur og félögum í Wolfsburg.

Miedema hefur alls skorað 35 mörk í 61 leik í þýsku úrvalsdeildinni, 8 mörk í 8 leikjum í Meistaradeildinni og 9 mörk í 9 leikjum í þýska bikarnum. Þetta gera samtals 52 mörk í 78 leikjum í búningi Bayern.

Vivianne Miedema er fædd í júlí 1996 en hóf að leika með meistaraflokki Heerenveen árið 2011 eða þegar hún var aðeins fimmtán ára gömul. Hún fór síðan til Bayern í júní 2014.

Miedema vann þýska meistaratitilinn með Dagnýju Brynjarsdóttur vorið 2015 en kvennalið Bayern var þá að vinna sinn fyrsta titil frá árinu 1976.

„Hún er álitin vera ein af bestu ungu framherjum heims,“ sagði Pedro Martinez Losa, knattspyrnustjóri Arsenal, við BBC.

Miedema lék sinn fyrsta landsleik árið 2013 en hefur nú skorað 38 mörk í 48 landsleikjum. Tvö þeirra komu í 4-0 sigri á Íslandi í apríl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×