Körfubolti

LeBron tók fram úr Jordan og komst í úrslit sjöunda árið í röð | Myndband

Tómas Þór Þórðarson skrifar
LeBron er kominn í úrslit sjöunda árið í röð.
LeBron er kominn í úrslit sjöunda árið í röð. vísir/getty
Cleveland Cavaliers fór létt með að pakka saman Boston Celtics, 135-102, í fimmta leik liðanna í úrslitum austurdeildar NBA í nótt en leikurinn fór fram á heimavelli Celtics.

Cleveland varð með sigrinum austurdeildarmeistari þriðja árið í röð og mætir Golden State í lokaúrslitum NBA. Þetta er í fyrsta sinn sem sömu liðin mætast þrjú ár í röð í lokaúrslitum NBA-deildarinnar.

LeBron James var stigahæstur Cleveland-liðsins með 35 stig auk þess sem hann tók átta fráköst og gaf átta stoðsendingar. Kyrie Irving skoraði 24 stig og Kevin Love skoraði fimmtán stig og tók ellefu fráköst.

LeBron náði enn einum stóra áfanganum á sínum glæsta ferli í nótt þegar hann setti niður þriggja stiga körfu í fjórða leikhluta og tók fram úr sjálfum Michael Jordan sem stigahæsti leikmaður úrslitakeppninnar frá upphafi. Þá er þetta sjöunda árið í röð sem LeBron kemst í lokaúrslitin.

Avery Bradley var stigahæstur Boston með 23 stig en liðið spilaði vitaskuld án síns besta manns, Isaiah Thomas, sem meiddist snemma í rimmunni.

Lokaúrslit NBA-deildarinnar hefjast 1. júní og verða allir leikirnir í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport HD.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×