Enski boltinn

Stuðningsmenn Swansea flestir á því að Gylfi sé sá besti frá upphafi

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson flýgur hátt hjá Swansea.
Gylfi Þór Sigurðsson flýgur hátt hjá Swansea. vísir/getty
Gylfi Þór Sigurðsson, leikmaður Swansea í ensku úrvalsdeildinni, er að mati flestra stuðningsmanna liðsins einfaldlega sá besti sem klæðst hefur hvítu treyju Svananna frá upphafi.

Gylfi hefur skorað 37 mörk og lagt upp önnur 30 og því komið með beinum hætti að 67 mörkum í aðeins 131 leik fyrir liðið. Fyrir þá sem ekki muna þá spilar hann á miðjunni.

Annað tímabilið í röð urðu mörk Gylfa og stoðsendingar til þess að Swansea hélt sér í ensku úrvalsdeildinni en óvíst er hvort hann verði áfram hjá velska félaginu þar sem hann er eftirsóttur af öðrum liðum, þá sérstaklega Everton.

Vegna þess að Gylfi hefur verið kallaður sá besti frá upphafi í Swansea setti velska fréttasíðan Wales Online í loftið skoðanakönnun þar sem stuðningsmenn liðsins geta einfaldlega kosið þann sem þeim finnst bestur frá upphafi.

Gylfi er að sjálfsögðu einn af þeim sem hægt er að kjósa um en hann er í hópi fjórtán manna í kosningunni. Þar á meðal eru Ashley Williams, Leon Britton og svo eldri kempur sem eru löngu hættar.

Þegar þetta er skrifað er Gylfi að vinna kosninguna með ríflega 30 prósent atkvæða en hægt er að kjósa okkar mann með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×