Innlent

„Það á að setja þöggunarnefnd yfir stjórnendur Landspítalans“

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna.
Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna. vísir/stefán
Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður VG og fyrrverandi fjármálaráðherra, segir hugmyndir um að skipa stjórn yfir Landspítalann ógeðfellda aðför stjórnarliða að spítalanum og sakar þá um þöggunartilburði. Ljóst sé að nýrri ríkisstjórn hugnast ekki vinnubrögð stjórnenda spítalans.

„Það er greinilegt að nýjum valdhöfum líkar ekki að Landspítalinn háskólasjúkrahús og stjórnendur hans hafa gert það sem þeim ber að gera, þeir hafa upplýst þing og þjóð um hina raunverulega stöðu Landspítalans,“ sagði Steingrímur í störfum þingsins í morgun.

Kokkað saman þöggunarnefnd bak við tjöldin

Unnið er að þingsályktunartillögu sem felur heilbrigðisráðherra að kanna kosti þess að skipa stjórn yfir spítalann. Steingrímur sagði að með því hafi ríkisstjórnin „bak við tjöldin kokkað með sér hugmyndir um einhvers konar póltíska stjórn“.

„Það á að setja þöggunarnefnd yfir stjórnendur Landspítalans og þeir eiga að hætta að koma og kynna sín mál fyrir fjárveitingarvaldinu og svo framvegis,“ sagði hann. Þá sé það galið af fjármálaráðherra að líkja Landspítalanum við fyrirtæki. „Er Landspítalinn bara eitthvað hf. úti í bæ? Bara fyrirtæki? Nei, Landspítalinn er móðurstöð í íslenska heilbrigðiskerfinu.

Eðlilegt að ræða málin og óþarfi að fara á taugum

Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagðist sjá ástæðu til þess að bregðast við ummælum Steingríms og sagði eðlilegt að þessi mál séu rædd. Þá sé óþarfi að fara á taugum.

„Ég held að stjórnir yfir opinberar stofnanir geti verið gagnlegar og orðið til þess að styrkja þær. Ég held að það verði að meta í hverju tilviki fyrir sig og ég held að við getum ekki útilokað umræður um það sérstaklega þegar um er að ræða jafn stóra stofnun sem gegnir jafn þýðingarmiklu hlutverki og Landspítali háskólasjúkrahús,“ sagði Birgir.


Tengdar fréttir

Stuðningur við tillögu um spítalastjórn

Bæði fjármálaráðherra og formaður fjárlaganefndar telja æskilegt að skipa stjórn yfir Landspítalann. Formaður velferðarnefndar segir hugmyndina á frumstigi en að unnið sé að þingsályktunartillögu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×