Innlent

Taka vel í áskorun Trump um aukin framlög til NATO

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra, var viðstaddur vígslu nýrra höfuðstöðva NATO ásamt öðrum leiðtogum bandalagsins í gær.
Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra, var viðstaddur vígslu nýrra höfuðstöðva NATO ásamt öðrum leiðtogum bandalagsins í gær. Visir/EPA
Leiðtogar aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins funduðu í Brussel í gær þar sem nýjar höfustöðvar bandalagsins voru vígðar. Leiðtogarnir sammældust þá meðal annars á fundinum um að bandalagið hefði formlega þátttöku í stríðinu gegn vígasamtökunum ISIS. Ákvörðun, sem er þó að mestu táknræn.

Donald trump, Bandaríkjaforseti, ásamt Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóra NATO.Vísir/EPA
Við afhjúpun á listaverki, sem byggt er úr brotum Berlínarmúrsins og Tvíburaturnanna, við nýju höfuðstöðvarnar ávarpaði Donald Trump, Bandaríkjaforseti leiðtoga bandalagsins. Þar minnti hann á áskorun sína um að aðildarríki bandalagsins greiði skyldubundin 2 prósent af útgjöldum ríkisins í sjóði bandalagsins.

„23 af 28 aðildarríkjum eru ekki að greiða það sem þau eiga að greiða fyrir varnir sínar,“ sagði Trump. „Þetta er ekki sanngjarnt gagnvart skattgreiðendum í Bandaríkjunum og margar þessara þjóða skulda fúlgu fjármagns frá fyrri árum.“

Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra, var staddur á fundinum. Hann segist hafa komið því áleiðis að íslendingar taki vel í áskorun Bandaríkjaforseta og þegar liggur fyrir samþykki aðildarríkjana um aukin fjárframlög til Atlantshafsbandalagsins.

„Það hefur á fyrri fundi verið samþykkt að menn færi sig yfir tíma í átt að [tveggja prósenta markmiðinu],“ segir Bjarni. „Tölurnar sýna það að ríki Atlantshafsbandalagsins eru að auka við sig og það erum við sömuleiðis að gera. Það hefur ríkt skilningur gagnvart Íslandi sem herlausri þjóð og það gilda kannski sérstök sjónarmið um stöðu slíkra ríkja. Engu að síður höfum við tekið vel í það að auka við stuðninginn vegna þess að það er mikilvægt til að tryggja frið, öryggi og varnir í okkar heimshluta,“ segir hann.

Framlög aðildarríkja til NATO sem hlutfall af landsframleiðslu 2016

Framlög Íslands til Atlantshafsbandalagsins hafa verið nokkuð stöðug undanfarin ár en lækkuðu úr rúmum 269 milljónum króna í rúmar 188 milljónir króna milli áranna 2015 og 2016. Samkvæmt ríkisfjármálaáætlun sem nú liggur fyrir Alþingi eiga framlög Íslands í samstarf um öryggis- og varnarmál að nema 1550 milljónum króna en nam 1154 milljónum króna árið 2016. Framlög til utanríkismála almennt eru rúmir 13.5 milljarðar króna í ár og er 1,8 prósent af útgjöldum ríkssjóðs. Ljóst er að útgjöld íslands til bandalagsins eru langt undir væntingum Bandaríkjaforseta en Ísland rekur lestina varðandi hlutfallsleg framlög til NATO.

Þá átti Bjarni fund með jens Stoltenberg í morgun og fóru þeir yfir stöðu bandalagsins og Íslands innan þess.

„Við vorum að gera upp fundinn í gær og ræða þessar áherslur sem NATO er að beita sér fyrir um þessar mundir sem er átak til að sporna við hryðjuverkum,“ segir hann. „Síðan er það auðvitað fjármögnun Atlantshafsbandalagsins sem var á dagskrá á þessum fundi. Áður fór góður tími á okkar fundi í að ræða framlag Íslands, okkar hlutverk og okkar stöðu í okkar heimshluta.“

Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra, ásamt Victor Orbán, forsætisráðherra Ungverjalands, á fundinum.Nordicphotos/Afp
Í nýlegri skýrslu um stöðu utanríkismála sem Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, kynnti fyrir Alþingi í mánuðinum kemur fram að Ísland er að auka skuldbindingar sínar gagnvart Atlantshafsbandalaginu.

Íslensk stjórnvöld hafa meðal annars fjölgað borgaralegum sérfræðingum í störfum innan bandalagsins og aukið við gistiríkisstuðning á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli. 

„Rekstur varnarmannvirkja á öryggissvæðinu og starfræksla ratsjárkerfisins, sem nær yfir umfangsmikið svæði á Norður-Atlantshafinu, er veigamikill þáttur í framlagi Íslands til sameiginlegra varna Atlantshafsbandalagsins,“ segir í skýrslunni.

Þá er nokkuð um sameiginlegar varnaræfingar á Íslandi í sumar og á næsta ári. Kafbátarleitaræfingin Dynamic Mongoose fer fram sumarið 2017 og varnaræfingin Trident Juncture verður haldin haustið 2018. Ísland tekur þá árlega þátt í Northern Challenge æfingunni en markmið hennar er að æfa sprengjueyðingu og viðbrögð við hryðjuverkum.

Framlög Íslands til NATO frá 2010 í m.kr




Fleiri fréttir

Sjá meira


×