Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: ÍBV - ÍA 1-4 | Skagamenn upp úr fallsæti eftir fyrsta sigurinn | Sjáðu mörkin

Gabríel Sighvatsson skrifar
ÍA vann í dag sinn fyrsta sigur í Pepsi-deild karla í sumar þegar liðið vann ÍBV, 1-4, á Hásteinsvelli. Með sigrinum komst ÍA upp úr fallsæti.

Arnar Már Guðjónsson kom ÍA yfir á 41. mínútu með frábæru skoti. Strax á upphafsmínútu seinni hálfleiks skoraði Þórður Þorsteinn Þórðarson svo annað mark Skagamanna með skoti beint úr aukaspyrnu.

Pablo Punyed minnkaði muninn á 50. mínútu með marki beint úr aukaspyrnu.

Þegar níu mínútur voru til leiksloka braut Hafsteinn Briem af sér innan vítateigs og fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt. Tryggvi Hrafn Haraldsson tók spyrnuna en Halldór Páll Geirsson varði.

Þetta sló gestina frá Akranesi þó ekki út af laginu og Albert Hafsteinsson og Tryggvi Hrafn bættu við mörkum áður en yfir lauk. Lokatölur 1-4, ÍA í vil.

Af hverju vann ÍA?

Öll mörkin í leiknum voru einkar glæsileg og er ekki hægt að kenna slakri vörn eða markvörslu um. Þegar Eyjamenn lentu undir þurftu þeir að sækja og því opnuðust glufur í vörninni sem ÍA nýtti sér. Gestirnir náðu loksins að þétta vörnina sína en þeir höfðu fengið 13 mörk á sig fyrir leikinn í dag. Þá var færanýtingin var mjög góð en 60% af skotum Skagamanna í seinni hálfleik enduðu í netinu.

Hverjir stóðu upp úr?

Arnar Már Guðjónsson var mjög góður í dag, stjórnaði miðjunni vel og átti örugglega atvik leiksins þegar hann skoraði með algjörri neglu seint í fyrri hálfleik. Þórður Þorsteinn tvöfaldaði forystuna með marki beint úr aukaspyrnu og stóð sig heilt yfir vel. Felix Örn var virkilega sprækur í liði ÍBV og á hrós skilið.

Hvað gekk illa?

Það var lítið að frétta í fyrri hálfleik og liðin voru ekki að skapa sér nein færi. Þá var vörn Eyjamanna í vandræðum með skyndisóknir gestanna en tvö síðustu mörkin komu úr skyndisóknum. Svo fékk Hafsteinn Briem fékk annað rauða spjaldið sitt á þessu tímabili undir lokin sem var klárlega ekki að hjálpa ÍBV.

Hvað gerist næst?

ÍBV þarf að spýta í lófana og reyna að komast aftur á beinu brautina í næsta leik. Þeir eru í ágætri stöðu með 7 stig. ÍA er ennþá í fallsæti en mun leitast við að byggja ofan á sigurinn í dag í næstu leikjum sem þeir geta hæglega ef vörnin heldur áfram að standa sig og sóknarleikurinn heldur uppteknum hætti.

Einkunnir:

ÍBV (5-3-2): Halldór Páll Geirsson 5 - Jónas Tór Næs 5 (76. Andri Ólafsson -), Matt Garner 5, Avni Pepa 5, Hafsteinn Briem 4, Felix Örn Friðriksson 7 - Sindri Snær Magnússon 6, Pablo Punyed 6, Viktor Adebahr 5 - Sigurður Grétar Benónýsson 5 (84. Gunnar Heiðar Þorvaldsson -), Alvaro Montejo Calleja 6 (76. Arnór Gauti Ragnarsson -).

ÍA (4-4-2): Ingvar Þór Kale 6 - Robert Menzel 6, Arnór Snær Guðmundsson 6, Gylfi Veigar Gylfason 6, Hilmar Halldsórsson 5 - Þórður Þorsteinn Þórðarson 7 (59. Ólafur Valur Valdimarsson 6), Arnar Már Guðjónsson 8*, Steinar Þorsteinsson 6 (88. Ragnar Már Lárusson -), Rashid Yussuff 5 - Garðar Gunnlaugsson 5 (46. Tryggvi Hrafn Haraldsson 7), Albert Hafsteinsson 6.

Gunnlaugur: Stóðumst pressuna þeirra

Gunnlaugur Jónsson, þjálfari ÍA, var að vonum hæstánægður með stigin þrjú sem Skagamenn sóttu til Eyja.

„Þetta er gríðarlegur léttir. Byrjunin hefur verið mjög erfið. Við mættum til leiks til að byrja þetta mót og ná fyrsta sigrinum. Og við gerðum það með bravör,“ sagði Gunnlaugur. En breytti hann einhverju fyrir leikinn í dag?

„Þetta var svipað og við lögðum upp með gegn Grindavík. Aftur á móti vorum við þéttari og einbeittari. Það var meiri samheldni og talandi í liðinu og grunnatriðin voru til staðar frá fyrstu mínútu,“ sagði Gunnlaugur.

Skagamenn enduðu fyrri hálfleikinn og byrjuðu þann seinni afar vel.

„Við lentum í brasi um miðjan fyrri hálfleik en enduðum hann, að mér fannst, mjög vel og skoruðum svo í upphafi seinni hálfleiks. ÍBV setti svo mikla pressu á okkur en við stóðumst hana og settum tvö mörk undir lokin,“ sagði Gunnlaugur.

„Við erum að skora mikið og erum, að ég held, með næstflest mörk í deildinni. Reyndar eiga nokkur lið eftir að spila í 5. umferðinni en þetta segir ýmislegt. Við náðum að þétta varnarleikinn í dag og nú þurfum við bara að halda áfram.“

Garðar Gunnlaugsson var tekinn af velli í hálfleik og í hans stað kom Tryggvi Hrafn Haraldsson. Gunnlaugur segir að álag síðustu vikna hafi sagt til sín hjá Garðari.

„Garðar er að koma úr meiðslum og þetta var fjórði leikurinn á tæpum tveimur vikum. Við mæatum það þannig að við vildum fá ferska fætur inn,“ sagði Gunnlaugur.

Kristján: Þeir voru með allt liðið í vörn

„Það er ömurlegt að tapa á heimavelli. Að fá á sig þriðja og fjórða markið er leiðinlegt. En við hefðum getað verið búnir að skora; komist í 1-0 og jafnað í 2-2,“ sagði Kristján Guðmundsson, þjálfari ÍBV, eftir tapið fyrir ÍA í dag.

„Það sem skilur á milli er þetta tímabil þegar við erum ofan á og sköpum okkur færi en látum verja frá okkur á meðan andstæðingurinn skorar glæsileg mörk.“

Kristján segir að Skagamenn hafi legið í vörn í leiknum í dag.

„ÍA er búið að skora fullt af mörkum en hefur bara verið að leka mörkum í sínum leikjum. Þeir komu hingað í dag og voru nánast með allt liðið í vörn,“ sagði Kristján.

„Skaginn á fimm skot á markið og skorar fjögur mörk á meðan við eigum sjö skot á markið og skorum eitt mark. Þegar við vorum ofan á og sköpuðum okkur færi fór boltinn ekki í markið.“

Eyjamenn eru með sjö stig eftir fimm umferðir. Kristján hefði viljað hafa þau fleiri.

„Þetta er ekki alveg samkvæmt því sem við vorum búnir að setja upp. Við þurfum að spýta í lófana núna,“ sagði Kristján.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira