Fótbolti

Tottenham með sigur í Hong Kong

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Vincent Janssen skoraði. Í alvöru.
Vincent Janssen skoraði. Í alvöru. vísir/getty
Tottenham spilaði vináttuleik í dag gegn Kitchee í Hong Kong. Fjöldi manna mætti til þess að sjá leikinn á Hong Kong Stadium sem endaði með 4-1 sigri Spurs.

Það tók Spurs sautján mínútur að brjóta ísinn en það var Kóreubúinn Heung-Min Son sem skoraði. Heldur uppteknum hætti þó svo tímabilinu sé lokið.

Vincent Janssen gat ekki keypt mark fyrir Spurs í vetur og áhorfendum nánast brá er hann skoraði annað mark Spurs fjórum mínútum síðar.

Enska liðið í fínum málum í hálfleik. Áhorfendur þurftu að bíða lengi eftir Harry Kane því hann kom síðastur af bekknum er korter var eftir af leiknum.

Kane sveik ekki aðdáendur sína í Hong Kong því hann skoraði þriðja markið sjö mínútum fyrir leikslok.

Stuðningsmenn Kitchee fengu svo enn meira fyrir peninginn er Lucas skoraði sárabótarmark í lokin. Veislunni var ekki lokið því Kazaiah Sterling skoraði fjórða mark Spurs í uppbótartíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×