Innlent

Rær í kringum Írland og lætur bjórinn alveg eiga sig

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Guðni Páll á ferðinni við Íslands strendur.
Guðni Páll á ferðinni við Íslands strendur. Aðsend mynd
Guðni Páll Viktorsson, þrítugur Þingeyringur sem reri á kajak í kringum Ísland fyrir fjórum árum, er mættur til Írlands. Markmiðið er að róa á kajak í kringum eyjuna grænu með þremur félögum sínum, tveimur Bretum og einum Íra.

Með leiðangrinum ætlar Guðni Páll að safna áheitum til styrktar Umhyggju, félagi langveikra barna. Fyrir fjórum árum safnaði Guðni Páll fyrir Samhjálp en ferðin í kringum Ísland tók þrjá mánuði. Hann reiknar með því að ferðin í kringum Írland, sem er 84 þúsund ferkílómetrar að stærð, taki skemmri tíma en í kringum Ísland sem er 103 þúsund ferkílómetrar.

Guðni Páll hugsi í kayaknum.Aðsend mynd
„Þetta er fallegt land, mikil kajakmenning svo þetta er skemmtilegt verkefni,“ segir Guðni Páll um Írlandsferðina í samtali við Vísi. Hann segist ekki beint vera að safna löndum en þetta verkefni hafi verið í kollinum á honum í tvö ár. Annar Bretanna reri umhverfis Ísland í fyrra en sá er vinur Guðna Páls.

„Þetta er bara ævintýri, að upplifa land og þjóð á annan hátt en allir hinir gera. Öðruvísi ferðamáti,“ segir Guðni. Þeir reikna með fjórum til fimm vikum í ferðalagið en þó sé ómögulegt að segja nákvæmlega til um það. Allt sé háð veðri.

Sjá einnig: Hjartveikur fastur á kaffistofu Landspítalans

„Það getur breyst fljótt. Það er bara róið þegar er veður til að róa. Annars er maður bara að bíða eftir veðri.“

Hinir fjórir fræknu munu tjalda á leið sinni umhverfis Írland, eyjuna sem færði heiminum Guinness. Raunar eru Írar fyrir fátt frægari en bjórdrykkju og varla til sú borg í heiminum þar sem ekki er að finna eitt stykki írskan bar.

Ekki verður mikið um bjórdrykkju að ræða í ferðinni, í það minnsta ekki hjá Guðna.

„Nei, ég er ekki bjórdrykkjumaður,“ segir kappinn og hlær.

Guðni Páll rær til styrktar Umhyggju, félagi langveikra barna.
Guðni Páll er spenntur fyrir verkefninu en enn spenntari virðast vinnufélagar hans á lagernum hjá Össuri vera. Þegar blaðamaður sló á þráðinn til Guðna Páls sprakk Guðni úr hlátri eftir nokkrar mínútur. Varð hlé á samtalinu við blaðamann þar sem Guðni kom ekki upp orði.

Þannig var að vinnufélagarnir höfðu verið að hrekkja hann allan daginn og meðal annars reynt að plata hann með því að sýna honum gervifrétt sem leit út fyrir að vera af Smartlandi Mörtu Maríu. Þar var minnst á þátttöku Guðna Páls í Herra Ísland árið 2007.

„Þeir voru að búa til einhverjar fréttir. Þetta er bara gott vinnustaðagrín,“ sagði Guðni þegar hann hafði náð andanum eftir hláturskast af dýrari gerðinni. Það er þó ekkert grín að hann tók þátt í Herra Ísland á sínum tíma.

Úttekt Fréttablaðsins frá 2007 um sigurvegara í Herra Ísland og hæð þeirra.
„Það er mikið rétt, og nei ég vann ekki keppnina,“ segir Guðni og hlær. Blaðamaður kannast við nokkra sem tekið hafa þátt í sömu keppni og vilja fæstir þeirra rifja það upp.

„Ég er alveg eins og þeir,“ segir Guðni og skellir upp úr. „Það er ekkert sem maður segir fólki frá þegar maður hittir það.“

En fyrst búið er að minnast á það er ekki úr vegi að rifja upp að Guðni hafnaði á meðal fimm efstu í keppninni.

Guðni Páll er mættur til Írlands þar sem er 26 stiga hiti og ekkert sem ætti að koma í veg fyrir blússandi byrjun á ferðinni í kringum landið.

Hægt er að fylgjast með Guðna Páli á Snapchat, Kayakgp, en styrktarreikningurinn fyrir Umhyggju er 0101-15-371646, kennitala: 691086-1199 og skýring: UM.


Tengdar fréttir

Á kajak í kringum landið

Vinir og stuðningsmenn Samhjálpar komu saman í samkomusal Samhjálpar í gær til að kveðja Guðna Pál Viktorsson áður en hann heldur í kajakróður í kringum Ísland til styrktar Samhjálp.

Átta klukkustundir á dag í kajak

"Ætli þetta hafi ekki verið draumur og ævintýraþrá sem runnu saman og úr varð þetta verkefni,“ segir Guðni Páll Viktorsson, sem ætlar að róa einn síns liðs á kajak í kringum landið í sumar til styrktar Samhjálp. Guðni Páll leggur af stað frá Höfn þann 1. maí og mun ferðalagið taka um tvo mánuði.

Hjartveikur maður fastur á kaffistofu Landspítalans

Guðni Páll Viktorsson hefur legið inni á hjartadeild Landspítalans í fjóra daga, veit ekki hvað amar að honum en má ekki fara heim. Engir sjúklingar eru útskrifaðir vegna verkfalls




Fleiri fréttir

Sjá meira


×