Innlent

Lögregla hefur hætt rannsókn á dauða hjólreiðamannsins á Nesjavallaleið

Birgir Olgeirsson skrifar
Maðurinn var á leið niður bratta brekku á Nesjavallaleið vestan megin við Dyrfjöll.
Maðurinn var á leið niður bratta brekku á Nesjavallaleið vestan megin við Dyrfjöll. Loftmyndir ehf.
Lögreglan á Suðurlandi hefur hætt rannsókn á dauða hjólreiðamanns sem fannst meðvitundarlaus á Nesjavallaleið á mánudag.

Hjólreiðamaðurinn var 28 ára gamall Ítali, fæddur árið 1989, en vegfarendur komu að honum meðvitundarlausum á veginum á Nesjavallaleið. Var haft samband við neyðarlínuna og honum komið á Landspítalann í Fossvogi. Hann var alvarlega slasaður og komst aldrei til meðvitundar. Lögreglan tilkynnti á miðvikudag að hann hefði verið úrskurðaður látinn.

Þorgrímur Óli Sigurðsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn á Suðurlandi, segir lögreglu ekki vita annað en að maðurinn hafi fallið á hjólinu og að ekkert bendi til þess að slysið hafi haft annan aðdraganda en að hann hafi misst stjórn á hjólinu.

Tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hefur útilokað að ekið var á hjólreiðamanninn.

Lögreglan segir Ítalann hafa fallið af reiðhjóli þegar hann fór niður bratta brekku, sem er síðasta brekkan sem er vestan megin við Dyrfjöll. Þorgrímur Óli segir aðstæður hafa verið góðar þennan dag, þurrt, níu stiga hiti og hægur vindur. Þá er vegurinn einnig með bundnu slitlagi.

Þorgrímur Óli segir Ítalann hafa verið léttklæddan á hjólinu, með lítinn farangur og hjálmlausan.

Á miðvikudag óskaði lögreglan eftir upplýsingum um slysið en Þorgrímur segir nokkrar ábendingar hafa borist, en engin þeirra hafi komið að gagni. Til að mynda barst ein ábending frá vegfaranda sem sá Ítalann daginn fyrir slysið. Úr því að engar nýjar upplýsingar liggja fyrir hefur lögreglan hætt rannsókn málsins.

Sendiráð Ítalíu hefur verið í sambandi við fjölskyldu mannsins, en ekki er unnt að gefa upp nafn hans að svo stöddu.


Tengdar fréttir

Ítalskur ferðamaður á reiðhjóli lést

Ítalskur ferðamaður á þrítugsaldri, sem fannst meðvitundarlaus á Nesjavallavegi eftir miðjan dag í gær, hefur verið úrskurðaður látinn á sjúkrahúsi í Reykjavík.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×