Lífið

Segir vegið að mannorði sínu

Snærós Sindradóttir skrifar
Ólafur Arnarson ætlar ekki að hætta sem formaður Neytendasamtakanna.
Ólafur Arnarson ætlar ekki að hætta sem formaður Neytendasamtakanna. Visir/Stefán
„Það er algjörlega ljóst að ég mun verja mig og mitt mannorð á meðan verið er að bera á mig rangar sakir. Það er ekki eins og þetta sé hálfsannleikur, þetta er bara hrein lygi,“ segir Ólafur Arnarson, formaður Neytendasamtakanna. Innanhússdeilur samtakanna hafa öllum verið opinberaðar á síðustu dögum eftir að stjórn samtakanna samþykkti vantraust á formanninn.

Ólafur tók við formennsku samtakanna í október á síðasta ári eftir ríflega þrjátíu ára formannssetu Jóhannesar Gunnarssonar. Þá strax fór að bera á umtali um að Ólafur hefði smalað svo rækilega á fundinn að mörgum þótti nóg um. Þær ásakanir hafa meðal annars verið rifjaðar upp undanfarna daga.

„Ég ætlaði ekkert að bjóða mig fram en fékk margar áskoranir og varð við því á síðasta degi. Kosningar snúast um smölun. Þær snúast um að fá fólk til að skrá sig og mæta. Að sjálfsögðu hvatti ég fólk til að skrá sig og mæta til að kjósa. Það gerðu hinir frambjóðendurnir líka en mér gekk bara betur. Ég smalaði ekkert öllum þeim fjölda sem kaus mig,“ segir Ólafur sem greiddi félagsgjöld fyrir 45 kjörmenn og millifærði 243 þúsund krónur inn á reikning samtakanna. Kosningaáherslur Ólafs sneru meðal annars að því að veita neytendum á Íslandi app í snjallsímann sem myndi auðvelda þeim verðsamanburð. Í ljós kom að slíkt app var til staðar, og heitir í dag Neytandinn. Deilur innan stjórnar snúast meðal annars um að í tengslum við appið hafi Ólafur skuldbundið félagið um 700 þúsund krónur á mánuði en sagt að það yrði félaginu að kostnaðarlausu.

„Það er bara ekki rétt. Ég hef aldrei sagt að þetta yrði Neytendasamtökunum að kostnaðarlausu. Enda hver trúir því? Kannski fólkið sem trúir því að það sé hægt að fara með upplognar sakir þegar til eru gögn sem sanna annað. Það er kannski sama fólkið sem getur sannfært sig um að verðmætt app sem samtökin fá til afnota sé þeim að kostnaðarlausu. Ég hef aldrei haft þessi orð uppi að appið yrði samtökunum að kostnaðarlausu en ég hef fulla trú á því að þegar upp er staðið muni samtökin hafa tekjur af þessu appi.“

Stóra deilumálið í stjórn Neytendasamtakanna snýr að launum Ólafs. Honum er gefið að sök að hafa hækkað laun sín, greitt sér bæði laun formanns og framkvæmdastjóra í einu, fengið laun leiðrétt afturvirkt og fengið það sem jafngildir þremur mánuðum í fyrirframgreidd laun.

Samkvæmt Ólafi voru laun formanns hækkuð af starfskjaranefnd, um 38% og eru nú 900 þúsund krónur. „Sá stjórnarmaður sem hefur farið hvað harðast gegn mér kom til mín strax eftir að ég var kosinn formaður og sagði að það þyrfti að endurskoða launin mín, fyrri formaður hefði verið á lúsarlaunum. Það var skipuð þriggja manna starfskjaranefnd með gjaldkera samtakanna, fyrrverandi stjórnarmanni og mannauðssérfræðingi utan úr bæ.“

Ólafur segir engan hafa hreyft mótbárum við niðurstöðu nefndarinnar og skrifað hafi verið undir ráðningarsamning í febrúar.

„Síðan kemur fjármálastjóri nokkrum dögum síðar með nýjan ráðningarsamning sem hann segir að sé í samræmi við að það hafi vantað heimild til formanns að skuldbinda félagið upp að 250 þúsund krónum. Ég rek þá augun í að það var búið að brjóta upp þessa 900 þúsund króna tölu í 750 þúsund og 150 þúsund. Ég dreg þá ályktun að hærri talan sé formannshlutinn og það þyki hagstætt fyrir samtökin að bæta einhverju smávegis ofan á laun formanns og kalla hann framkvæmdastjóra. Þetta er bara tilkynnt fyrir mér sem eitthvað afgreiðsluatriði og ég reyndi að fara últra varlega í því að hafa engin afskipti af starfskjaranefndinni.“

Í kjölfarið voru laun Ólafs leiðrétt afturvirkt til þess tíma sem hann var kosinn í embættið. Ólafur segist ekki hafa beðið um það. Hins vegar hafi hann beðið um fyrirframgreidd laun fljótlega eftir að hann tók við embætti.

Bíllinn sem Ólafur hefur til umráða og deilur standa um. Fréttablaðið/Stefán
„Ég fékk fyrirfram já, en það voru engir þrír mánuðir. Þetta voru sirka mánaðarlaun. Helsta ástæðan voru viðgerðir á bíl sem ég kreisti síðustu kraftana úr í byrjun minnar formennsku. Ég lenti í helvíti stórri viðgerð á honum.“

Annað deilumálið í stjórn Neytendasamtakanna snýr að því hvort Ólafur hafi skuldbundið félagið til að útvega honum bíl þvert á vilja stjórnar. Ólafur hefur raunar gert opinbera fundargerð þar sem fram kemur að stjórnin hafi rætt um „vilja samtakanna“ til þess að útvega bifreið fyrir formann samtakanna og skrifstofu. Fjármálastjóra var í lok fundar falið að ganga frá málinu. Stjórnarmenn segja að fundargerðin gefi ekki rétta mynd, fimm stjórnarmenn hafi samþykkt að útvega bíl með þeim skilyrðum að fjárhagur samtakanna leyfði það. 

Þær ásakanir hafa komið upp að enginn nema Ólafur hafi fengið afnot af bílnum en hann hafi verið ætlaður öllum starfsmönnum samtakanna.

„Ég hef ítrekað sagt við fjármálastjórann að ef ég sé á skrifstofunni og hann þurfi að skutlast eitthvað þá megi hann hnippa í mig og taka bílinn. Hann hefur ekkert nýtt sér það. En upphaflega sá ég fyrir mér að þetta yrði bíll sem ég hefði forgang að af því að formaðurinn er sá sem þarf mest að vera á þeytingi en starf annarra starfsmanna er að mestu leyti á skrifstofunni,“ segir Ólafur.

„Ég sá fyrir mér að það væri bíll sem ég þyrfti ekki að borga hlunnindaskatt af ef hann væri bara fyrir skrifstofuna en þá kom í ljós að ef bíllinn er ekki geymdur á vinnustaðnum yfir nótt þá þarf að vera skráður umráðamaður og sá er skattlagður um hlunnindaskatt. Þar sem ég þarf oft að byrja daginn í morgunútvarpinu og er oft langt fram á kvöld einhvers staðar í þágu samtakanna þá var engin önnur leið en að skrá mig sem umráðamann bílsins. Úr því að ég borga hlunnindaskatt af bílnum þá hef ég hann til fullra umráða. En ég hef ítrekað nefnt það við fjármálastjórann að ef hann þurfi að skutlast þá standi bíllinn honum til boða.“

Ólafur segir að sér hafi verið ráðlagt oft undanfarna daga að leita réttar síns með því að höfða meiðyrðamál gegn sumum stjórnarmönnum félagsins. Sjálfur var hann dæmdur í slíku máli vegna ummæla sinna um vefinn AMX og varð í kjölfarið gjaldþrota vegna þeirrar skuldar sem þar féll á hann. „Ég bíð eftir niðurstöðu frá Mannréttindadómstól Evrópu í því máli. Minn lögmaður segir að ég megi búast við niðurstöðu á þessu ári og telur að miðað við dómafordæmi sé alveg klárt mál að héraðsdómstóllinn braut á mér og Hæstiréttur líka. Trú mín á íslenskt dómskerfi er ekki mikil.“

Ólafur segir því ekki líklegt að hann höfði meiðyrðamál. „Það er í sjálfu sér alveg hægt að hafa þetta ástand eins og það er núna en ég held að það sé ekki æskilegt. Ég hef alltaf sagt að ég vilji finna einhverja lausn í þessu máli. Lausnin felst ekki í því að það séu bornar á mig lognar sakir og ég bugti mig og beygi og biðjist afsökunar og vægðar. Það kemur bara ekki til greina. Ef þetta fólk vill vinna með mér þá verður það að koma fram heiðarlega og hætta einhvers konar baktjaldamakki gegn mér og samtökunum.“

Á fundi samtakanna á mánudag var lagt til að annar en Ólafur tæki við fundarstjórn. Ólafur samþykkti það ekki og setti fund og sleit honum samtímis. Hann hefur þá hugmynd að allir, formaður og öll stjórn, komi sér saman um dagsetningu til að segja af sér svo hægt verði að kjósa upp á nýtt.

„Það er erfitt að verja sig gegn lygum en ég verð að gera það. Það er um mína æru að tefla. Ég hef engan áhuga á því að fara í meiðyrðamál því æran vinnst ekki til baka í meiðyrðamáli. Ég vona að þessum opinberu árásum á mig fari að linna en á meðan þeim ekki linnir mun ég svara. Það er verið að reyna að reyta af mér mitt mannorð og mannorðið er bara tekið af mönnum einu sinni.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×