Innlent

Landlækni líst vel á að setja stjórn yfir Landspítalann

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Landlækni líst vel á hugmyndir um að setja ytri stjórn yfir Landspítalann. Hann segir að hafi stjórnin faglega og stjórnunarlega þyngd yrði það góður stuðningur fyrir stjórnendur Landspítalans í framtíðarstarfi.

Tillaga Nichole Leigh Mosty, formanns Velferðarnefndar Alþingis, og meirihluta fjárlaganefndar um að skipa sérstaka stjórn yfir Landspítalann er umdeild. Nichole var meðal annars sökuð um vantraust í garð stjórnenda spítalans en í fréttum Stöðvar 2 í gær vísaði hún því á bug og sagði tilganginn með stjórninni einmitt að styrkja stjórnun spítalans.

Málið var til umræðu á Alþingi í dag og sagði Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna, að hugmyndin væri ógeðfelld aðför að spítalanum.

Birgir Jakobsson landlæknir er á öðru máli.

„Mér líst bara vel á þá hugmynd. Það fer náttúrlega verulega eftir því hvernig sú stjórn er samansett, en ef að hér er um að ræða stjórn sem hefur faglega og stjórnunarlega þyngd, þá held ég að það sé bara gott mál og ætti að vera góður stuðningur fyrir stjórn Landspítalans í framtíðarstarfi,“ segir hann.

Birgir segir að þungamiðjan yrði þó að vera að stjórnin yrði faglega skipuð en ekki pólitískt og að hún þyrfti að hafa víðtæka reynslu af stefnumörkun og rekstri.

„Mín reynsla af svona stjórn, eins og ég hef haft sjálfur sem sjúkrahússtjóri, hún er íraunverulega tvíþætt. Annars vegar er það ákveðinn stuðningur í að hafa samband við stjórnmálamenn og þá sem stýra fjárveitingum til spítalans. Og hins vegar líka aukið aðhald að stjórn spítalans, að sinna þeim málum sem virkilega þarf að sinna. Og mér hefur bara fundist það vera gott mál,“ segir Birgir Jakobsson landlæknir. 


Tengdar fréttir

Stuðningur við tillögu um spítalastjórn

Bæði fjármálaráðherra og formaður fjárlaganefndar telja æskilegt að skipa stjórn yfir Landspítalann. Formaður velferðarnefndar segir hugmyndina á frumstigi en að unnið sé að þingsályktunartillögu.

Vísar vantrausti í garð stjórnenda Landspítalans á bug

Formaður velferðarnefndar Alþingis er sökuð um vantraust í garð stjórnenda Landspítalans með tillögu um að skipuð verði sérstök stjórn yfir spítalann. Hún vísar því á bug og segir að tillagan gangi út á að styrkja stjórnun spítalans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×