Lífið

Steig inn í hræðilegar aðstæður

Kristjana Guðbrandsdóttir skrifar
"Þetta eru berskjölduð börn, það eru börn að vinna úti um allt, frá fimm ára aldri. Það er svo auðvelt fyrir þá sem vilja misnota þau að nálgast þau,“ segir Sigríður.
"Þetta eru berskjölduð börn, það eru börn að vinna úti um allt, frá fimm ára aldri. Það er svo auðvelt fyrir þá sem vilja misnota þau að nálgast þau,“ segir Sigríður. Visir/Stefán
Sigríður Thorlacius tók sér tíma til að ákveða hvort hún færi sem sjálfboðaliði UNICEF til Bangladess. „Ég var ekki viss um hvort ég ætti að fara,“ segir Sigríður um það þegar UNICEF leitaði til hennar fyrir nokkru síðan og bað hana um að fara þangað að kynna sér starf samtakanna þar í þágu barna. Um 40 prósent af íbúum Bangladess eru börn, eða um 57 milljónir.

Um 26 milljónir þessara barna búa undir fátækramörkum og skortir því oft grunnþarfir líkt og hreint vatn, næringu, menntun, heilsugæslu, hreinlæti eða húsaskjól.

Barnaþrælkun
„Mér fannst eins og það þyrfti svakalegan bolta í þetta verkefni. Ég var upptekin á þeim tíma sem stóð til að fara, en hefði mögulega getað afbókað,“ segir Sigríður frá.

Þegar tímasetningar ferðarinnar breyttust var aftur haft samband við Sigríði. „Þá hugsaði ég með mér: Æi, Sigríður, þú hefur gott af þessu og þú getur gert þetta. Ég ákvað að taka mér ekki frekari tíma til umhugsunar og sagði já.

Ég hef mikinn áhuga á málefnum barna og hef verið heimsforeldri UNICEF í áratug. Ég ákvað að líta á tilboðið sem tækifæri fyrir mig til að kynnast öðru en ég er vön.“

Þótt Sigríður hafi ferðast víða um heim vegna tónleikahalds hafði hún aldrei kynnst annarri eins borg og Dakka, höfuðborg og jafnframt stærstu borg Bangladess, þar sem íbúafjöldi er um 17 milljónir á stórborgarsvæðinu.



Sigríður dvaldi í tíu daga í Dakka, höfuðborg Bangladess. Visir/Stefán
„Við dvöldum í tíu daga í Dakka. Ég var með góðu fólki frá UNICEF, bæði sem ferðaðist með mér frá Íslandi og sem tók á móti mér í borginni. Þetta er risastór borg. Ég hef aldrei kynnst öðru eins.

Ég hef farið mjög víða og ferðast um í Asíu. En til Bangladess sækja ekki ferðamenn. Mjög fáir að minnsta kosti og þetta er svo ólíkur menningarheimur þeim sem ég hef kynnst og margt nýtt fyrir mér,“ segir Sigríður og segir borgarbúa ekki síður hafa rekið upp stór augu vegna ferðalanganna.

„Við vorum örugglega eins og fífl í þeirra augum í svörtu stuttermabolunum okkar, hlaðin myndavélum og drasli.“



Eitt það erfiðasta í ferð Sigríðar var heimsókn í þessa múrsteinaverksmiðju þar sem lítil börn vinna erfiðisvinnu.Steinþór/UNICEF
Lítil börn í múrsteinaverksmiðju

Hún segir að ekkert hefði getað undirbúið hana undir það sem hún varð vitni að í borginni. En þrátt fyrir að í landinu séu lög sem segi til um að lágmarks vinnualdur eigi að vera 14 ár, þá eru um 3,5 milljónir barna, flest á aldrinum 5 til 15 ára, í þrælkunarvinnu í Bangladess. Yfir milljón þessara barna er í erfiðri og oft á tíðum stórhættulegri vinnu, ásamt því að upplifa oft skelfilegar aðstæður þar sem þau eru beitt ofbeldi og misnotkun. Börnin vinna hátt í 13 tíma á dag og fá oft lítið sem ekkert greitt fyrir. Börnin geta því ekki aflað sér menntunar en um 15 prósent barna á aldrinum 6 til 14 ára ganga ekki í skóla vegna þrælkunarvinnu.

„Ég var búin að vera að reyna að undirbúa mig og hafði heyrt í fólki sem hafði farið að þetta myndi taka á. Fljótt vissi ég að ég gæti ekki undirbúið mig undir það að vera þarna. Ég ákvað bara að ganga í þessar aðstæður og glíma við þær. Ég sá vegalaus börn, börn í þrælkunarvinnu og veik börn. Ég var aðallega að hitta og tala við börn og hitti til dæmis börn sem unnu í múrsteinaverksmiðju sem var aðeins fyrir utan borgina og börn sem unnu í skóverksmiðju. Það tók á,“ segir Sigríður. „Það fór allt í smágraut í hausnum á mér. Við erum neytendur og kannski ekki meðvituð um hvernig allt verður til sem við kaupum. Þetta er ógeðslegt. Lítil börn að vinna erfiðisvinnu í skít og ömurlegum aðstæðum. Maður frýs bara.“



Börn í borginni eru víða illa haldin og aðstæður þeirra til lífs bágar.
Á sama tíma fannst Sigríði gott að verða vitni að því að það var hægt að koma góðu til leiðar í borginni. „Ég fór til dæmis á stúlknaheimili sem er starfrækt af UNICEF. Það er athvarf fyrir stúlkur sem byggju annars á götunni. Þar fá þær húsaskjól, fæði og umhyggju. Þegar þær eldast fara þær og leita að ungum stúlkum sem eru í sömu sporum og þær voru í þegar þær voru litlar. Koma þeim til hjálpar og í athvarfið. Í borginni var líka svipað athvarf fyrir stráka. Það gaf mér von að verða vitni að þessu góða starfi. Þetta var eiginlega bara brjálæðislega fallegt í þessu öllu saman.“

Skráning fæddra barna í Bangladess er ein sú lægsta í heimi, þar sem rétt yfir helmingur barna fær skráningu. Þess vegna er erfitt að vernda börn gegn þrælkun, mansali og barnabrúðkaupum. Þetta eru ósýnileg börn í kerfinu. En svo sannarlega sýnileg á götum Dakka.

„Þetta eru berskjölduð börn, það eru börn að vinna úti um allt, frá fimm ára aldri. Það er svo auðvelt fyrir þá sem vilja misnota þau að nálgast þau. Svo er mikið af börnum sem týnast. Enginn veit hvað hefur orðið um þau,“ segir Sigríður sem segir reynsluna í Bangladess hafa breytt sýn sinni til frambúðar.

Börnin komin með skráp

Þá ekki síst hvað varðar bernskuna og ábyrgð þeirra fullorðnu. Hún rifjar það upp þegar hún heimsótti ferjustöð í Dakka þar sem lítil börn bjuggu.

„Þetta var rosalega fjölmenn ferjustöð við bryggju. Allt í hávaða og látum og þarna bjuggu lítil börn. Líklega um fimm ára gömul. Þótt þau væru svona lítil voru þau einhvern veginn svo alltof fullorðin, komin með skráp og orðin hörð af sér. Héldu sig saman í klíkum. Þarna urðu mér fyllilega ljós forréttindin sem við búum við og mér varð hugsað til lífs systkinabarna minna á Íslandi.“

Sigríður segir einn dreng sem hún hitti hafa haft mikil áhrif á sig. „Ég er ekki foreldri og hef ekki mikið velt fyrir mér foreldrahlutverkinu. Eftir þessa heimsókn gæti ég hugleitt að ættleiða barn úr vondum aðstæðum.

Ég er ekki foreldri og hef ekki mikið velt fyrir mér foreldrahlutverkinu. Eftir þessa heimsókn gæti ég hugleitt að ættleiða barn úr vondum aðstæðum.Steinþór/UNICEF
„Ég hitti dreng sem hafði mikil áhrif á mig. Við hittum hann tvisvar. Fyrst á lestarstöðinni. Hann var tólf ára, hann var voða sætur og frakkur.

Svo hittum við hann aftur tveimur dögum seinna og hann var að þvælast í kringum mig. Þá var ég með túlk og við fórum að spjalla saman. Hann sagði við túlkinn að við værum vinir. Við hefðum hist áður og að hann vildi koma með mér heim í flugvél.

Hann spurði mig um Ísland og var eins og mörg þeirra barna sem ég hitti með svona skráp. Einhvern skjöld á sér. Ég hefði ekkert viljað frekar en að taka hann með mér. Ég áttaði mig samt á því að ég væri foreldri í raun. Sem heimsforeldri get ég bætt líf barna í hans stöðu. Ég er mjög þakklát því að hafa fengið að sjá uppbyggilegt starf UNICEF.

Ég hef aldrei séð eftir því að styðja samtökin en þarna sá ég þetta með eigin augum, hvert mínir peningar fara.“

Þegar Sigríður kom heim voru ­tilfinningarnar blendnar. „Það er svo skrýtið að fara úr þessum aðstæðum og labba bara inn í sína íbúð og henda sér í sófann og vera áhyggjulaus, þannig séð. Þetta var smá krass. Á sama tíma og ég vildi vera lengur þráði ég að fara heim. Ofan á það að taka inn aðstæður barnanna þá er borgin yfirþyrmandi. Allt þetta fólk, allur þessi hávaði, bílflautur, læti, ryk, hiti og raki. Þetta var erfið ferð á allan hátt og ég var rosalega tilbúin að fara heim. Þetta var þó líka fallegt og spennandi,“ segir Sigríður og segir erfitt að miðla tilfinningum um ferðina.

Það gladdi Sigríði að heimsækja stúlknaheimili rekin af UNICEF.Steinþór/UNICEF
„Við vitum af ástandinu. Við sjáum myndir, heyrum sögur þessara barna. En við áttum okkur samt ekki í raun og veru á hvað það er sem er á bak við þessar myndir. Ég hef til dæmis reynt að segja nánum vinum frá ferðinni. En það er erfitt að miðla þessu af öllu hjarta.

Dvölin breytti mér til frambúðar. Þetta er allt nær mér og ég held að allir hafi gott af því að stíga inn í aðstæður sem þessar og mæta fólki sem býr við þær. Þessi börn eru ekki bara einhver mynd og einhver tölfræði. Þetta eru börn sem eiga að fá að leika sér, mennta sig. Vera örugg.

Dagur rauða nefsins verður haldinn þann 9.júní næstkomandi. Hér setja börn í Dakka upp rauða nefið.Steinþór/UNICEF
Ég fór aðeins að skoða sjálfa mig. Horfa í kringum mig á dótið mitt. Um leið og ég er þakklát fyrir rúmið mitt, húsaskjólið, þá styrkist meðvitundin um hvað allt draslið og dótið er merkingarlaust. Og hvað það er sem í raun er mikilvægt,“ segir Sigríður.

Staða barna í Bangladess

Um 40% af íbúum Bangladess eru börn, eða um 57 milljónir. Um 26 milljónir þessara barna búa undir fátækramörkum. Þau hafa ekki aðgang að hreinu vatni, næringu, menntun, heilsugæslu, hreinlæti og hafa jafnvel ekki húsaskjól.

Þrátt fyrir að til séu lög í landinu sem segja til um að lámarks vinnualdur eigi að vera 14 ár, þá eru um 3,5 milljónir barna, flest á aldrinum 5 til 15 ára, í þrælkunarvinnu í Bangladess. 

Yfir milljón þessara barna eru í erfiðisvinnu og vinna oft hátt í þrettán tíma á dag. Þau fá lítið sem ekkert greitt fyrir vinnu sína.

Um 15% barna á aldrinum 6 til 14 ára í Bangladess ganga ekki í skóla vegna þrælkunarvinnu.

66% stúlkna í Bangladess eru giftar fyrir 18 ára aldur.

171,000 börn deyja á ári hverju fyrir 5 ára aldur, oft af völdum sjúkdóma sem hægt er að koma í veg fyrir. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×