Innlent

Benedikt dregur framboð sitt til baka

Atli Ísleifsson skrifar
Benedikt Jóhannesson, fjármála-og efnahagsráðherra.
Benedikt Jóhannesson, fjármála-og efnahagsráðherra. vísir/ernir
Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur dregið framboð sitt til áframhaldandi setu sem formaður Hollvinafélags Menntaskólans í Reykjavík til baka. Frá þessu greindi hann á Facebook-síðu sinni síðdegis í dag.

Benedikt segist hafa verið viðstaddur skólaslit MR í dag þar sem hann flutti ræðu fyrir hönd Hollvinafélagsins. „Ég talaði líka um að kannski hefði skólinn liðið fyrir það að margir stjórnmálamenn hefðu komið úr skólanum. Þeir væru hræddir um að láta skólann njóta jafnræðis við aðra skóla af ótta við að vera skaðir um að hygla sínum gamla skóla.

Í ljósi þess sagði ég frá því að ég hygðist ekki gefa kost á mér til endurkjörs í Hollvinafélaginu í þetta sinn, þannig að ekki kæmu upp ásakanir af þessu tagi í minn garð, þó að svo vildi til að einhvern tíma verði staðið við loforð um að bætt verði úr húsnæði skólans og hann njóti jafnræðis við aðra,“ skrifar Benedikt.

Um síðustu helgi var greint frá því að listfræðineminn Hrafnkell Hringur Helgason hefði ákveðið að skora Benedikt á hólm og bjóða sig fram sem formaður Hollvinafélagsins. Nú er ljóst að Hrafnkell Hringur verður sjálfkjörinn í embætti formanns.

Aðalfundur Hollvinafélagsins fer fram á sal Menntaskólans í Reykjavík á morgun klukkan 13. Þar eru ýmis mál á dagskrá en ber helst að nefna kosninga formanns og sex meðstjórnenda.

Í ræðu sinni í dag sagði Benedikt jafnframt að Hollvinafélagið hafi gefið skólanum netþjón og staðarnet, auk fleiri gjafa. Alls hafi um sex milljónir króna farið í gjafir til skólans og önnur verkefni honum tengd.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×