Lífið

Þegar Mathias Rust lenti á Rauða torginu

Theodór Brynjólfsson skrifar
Mathias á Reykjavíkurflugvelli. Myndina tók Pétur P. Johnson ljósmyndari.  Með Mathias á myndinni er Gísli Garðarsson sem var þá starfsmaður útlendingaeftirlits Lögreglunnar í Reykjavík.
Mathias á Reykjavíkurflugvelli. Myndina tók Pétur P. Johnson ljósmyndari. Með Mathias á myndinni er Gísli Garðarsson sem var þá starfsmaður útlendingaeftirlits Lögreglunnar í Reykjavík. Pétur P. Johnson
Fyrir þrjátíu árum, þann 28. maí 1987 lenti Þjóðverjinn Mathias Rust, smávél af tegundinni Cessnu Skyhawk 172 á Bolshoy Moskvoretsky brúnni. Hann var rétt tæplega tvítugur og hafði árinu áður fylgst með leiðtogafundinum sem var haldinn á Íslandi 1986. Hann hafði orðið fyrir miklum vonbrigðum með árangur fundarins og vildi gera eitthvað róttækt í málinu.





Cessnan á Reykjavíkurflugvelli.Pétur P. Johnson
Hugljómun í Höfða

Rust hafði frá barnæsku haft mikinn áhuga á flugi. Hann tók sína fyrstu flugtíma hjá flugklúbbi í Hamborg aðeins tveimur árum fyrir flugið og undirbjó sig með æfingaflugi til Reykjavíkur.

Hann leigði Cessnu Skyhawk 172 í þrjár vikur af flugklúbbnum í Hamborg. Vélin var útbúin með auka eldsneytistanki sem jók flugdrægni vélarinnar. Þann 13. maí 1987 hóf hann sig á loft frá Uetersen-flugvelli fyrir utan Hamborg.

Þann 15. maí flaug hann til Reykjavíkur, dvaldi hér í vikutíma þar sem hann heimsótti m.a. Höfða og kom þar að lokuðu húsi, en taldi sig hafa orðið fyrir einhvers konar hugljómun sem hvatti hann til frekari dáða.

Hann hitti flugvirkjana Þóri Garðarsson og Guðbjart Torfason í skýli á Reykjavíkurflugvelli þar sem flugskólinn Geirfugl hefur starfsemi sína í dag og óskaði eftir smávægilegum viðgerðum. Hann var fámáll og hlédrægur og Þórir og Guðbjartur grunlausir um áform hans.

Nokkrum vikum seinna var töluverður ágangur af þýskum blaðamönnum í skýlinu sem vildu fá að vita allt um heimsókn Rusts.





Lagt af stað til Helsinki

Þann 22. maí lagði Rust af stað frá Reykjavík til Helsinki. Ferðin var farin fyrir tíma GPS-tækja með frumstæðum búnaði til stefnumiðunar.

Að morgni 28. maí lagði Rust svo af stað frá Helsinki og gaf upp þá flugáætlun að hann væri á leið til Stokkhólms. Rust hélt flugáætlun í 20 mínútur, eða þar til hann kvaddi finnska flugstjórnarsvæðið. Þegar hann kom að finnska bænum Nummela sneri hann flugvélinni í austurátt.

Flugumferðastjórar í Tampere Finnlandi tóku strax eftir nærri 180° stefnubreytingunni, og reyndu árangurslaust að ná sambandi, þar sem hann flaug m.a. yfir finnskt hernaðarbannsvæði.

Næst sást flugvélin á ratsjá frá sovéskri hernaðarstöð í Skrunda í Lettlandi og loftvarnareiningar settar í viðbragðsstöðu.

Sovéskir flugumferðarstjórar fylgdust með flugvélinni. Herdeildir á svæðinu voru einnig settar í viðbragðstöðu. Tvær orrustuflugvélar frá Tapa-herstöðinni voru sendar með hraði í loftið.

Þegar Rust var búinn að vera á lofti í tvo klukkutíma, sá hann svartan skugga þjóta um himininn og hverfa. Augnabliki síðar kom flugvél á móti honum á ofsahraða og hvarf.

Hann hugsaði með sér „Nú er komið að því.“

Upp að vinstri hlið rennir MiG-23 orrustu flugvél, sem er risastór í samanburði við Cessnuna.

Hann fylgdist með orrustuvélinni og honum til undrunar þá komu engin boðmerki frá flugmanninum þess efnis að hann ætti að fylgja honum.

Sovéskir rannsakendur greindu Rust seinna frá því að orrustuflugmaðurinn hafi reynt árangurslaust að ná sambandi í gegnum talstöð.

Um þrjúleytið kemur Rust að þjálfunarsvæði sovéska flughersins, þar sem sjö til tólf flugvélar voru við æfingaflug. Þessar vélar hegðuðu sér á svipaðan hátt og gáfu frá sér svipað ratjárendurkast og Cessna Rusts.

Á þessari stundu var varnarmálaráðherrann Sergei Sokolov og aðrir háttsettir menn innan hersins á fundi Varsjárbandalagsins í Austur-Berlín ásamt Gorbachev.

Um 60 km vestur af bænum Torzhok, verður stjórnandi ratsjár var við merki frá Cessnu Rusts, en telur það vera merki frá tveimur þyrlum sem höfðu verið við leitarstörf skömmu áður, og í framhaldi var vélin flögguð sem „vinur“.

Rust hélt sem fyrr ótrauður áfram að yfirráðasvæði hersins við Moskvu. Hann flaug nú að svokölluðum „Stálhring“ sem er ysta loftvarnarbelti Moskvuborgar.

Rétt eftir 18.00 flaug Rust að borgarmörkum Moskvu.

Á meðan Rust flaug yfir borgina byrjaði hann að skima eftir Rauða torginu.

Hálfvilltur flaug hann frá byggingu til byggingar, á meðan á þessum æfingum stóð nálgaðist hann óafvitandi kjarna borgarinnar og allt í einu blasti við áberandi veggurinn sem umlykur Kreml.

Rust tók þegar stefnuna á Kreml, lækkaði flugið og hóf að leita að hentugum lendingarstað.

Hann lenti vélinni og ók vélinni að girðingu við Basilkirkjuna. Drap á hreyflinum, lokaði augunum og dró andann djúpt. Hann fann fyrir miklum létti. Hann leit á klukkuna á Kremlinturni og sá að klukkan var 18.43.





Réttarhöldin tóku þrjá daga og Mathias var dæmdur til fjögurra ára vistar í helsta öryggisfangelsi Rússa.Nordic photos
Fólk flykktist að. „Fólkið brosti, tók í höndina á mér og bað um áritun. Ég sagði ungum Rússa frá erindi mínu sem væri friðsamlegt. Andrúmsloftið var gott og ein kona gaf mér brauð sem tákn um vináttu,“ sagði Rust sjálfur frá.

Rust tók ekki eftir liðsmönnum KGB sem nálguðust, tóku viðtöl við fólk og lögðu hald á myndavélar.

Flugvélin var síðan tekin á Sheremetyevo-flugvöll þar sem hún var tekin í sundur til rannsóknar. Rust var færður í hið alræmda Lefortovo-fangelsi KGB. Þar dvöldu allir helstu andófsmenn Sovétríkjanna um lengri eða skemmri tíma. Fangelsið er enn í notkun og notað í dag af SVB, arftaka KGB.

Þegar þarlendir áttuðu sig á undirbúningi flugsins og eins þeim hindrunum sem Rust hafði yfirstigið, trúðu Sovétmenn ekki að flugið væri eins manns verk.

Rannsakendur trúðu því að ferðalag Rusts væri hluti af miklu stærri áætlun. Þeir ásökuðu hann einnig um að hafa orðið sér úti um kort frá CIA eða þýska hernum, sem var fjarri sannleikanum.

Fjölmiðlar settu fram ýmsar tilgátur um ástæðuna. Rust átti að hafa tapað veðmáli, ferðin var farin til að ganga í augun á tiltekinni stúlku, hann átti að hafa dreift bæklingum sem kröfðust lausnar Rudolfs Hess.

Pravda hélt því fram að Rust væri leiksoppur í alþjóðlegu samsæri þar sem reiknað hefði verið með að hann yrði skotinn niður til að koma af stað alþjóðlegu atviki. Það var sama hversu fáránlegar samsæriskenningarnar voru, Sovétmenn sáu ástæðu til að skoða þær allar.

Þann 23. júní 1987 luku Sovétmenn rannsókninni og Rust var ákærður fyrir ólöglega komu inn í landið, hafa brotið flugreglur og unnið skemmdarverk. Rust lýsti yfir sekt sinni í öllum atriðum nema því síðasta.

Eftir þriggja daga réttarhöld sem lauk þann 4. september komust þrír dómarar að þeirri niðurstöðu að Rust væri sekur af öllum ásökunum og var hann dæmdur til fjögurra ára vistar í áðurnefndu Lefortovo-fangelsi. Fangelsið sem var og er helsta öryggisfangelsi Rússa, tryggði Rust öryggi. Hann lét lítið fyrir sér fara og fékk ágætan aðbúnað, fékk að vinna í fangelsisgarðinum og foreldrar hans heimsóttu hann á tveggja mánaða fresti.

Þann 3. ágúst 1988, tveimur mánuðum eftir að Reagan og Gorbachev náðu samkomulagi um eyðingu á millidrægu kjarnorkuvopnum í Evrópu, ákvað hæstiréttur að láta Rust lausan.



Sögulegt mikilvægi þessa atburðar er mikið. Varnarmálaráðherra, Sergei Sokolov ,og yfirhershöfðingi loftvarnarmála, Alexander Kolduknov viku úr stöðum sínum. Þá voru hundruð foringja reknir eða færðir til. Um var að ræða mestu hreinsanir meðal stjórnenda sovéska hersins síðan á Stalíntímabilinu í kringum 1930. Goðsögnin um yfirburði og styrk sovéska hersins beið alvarlegan hnekki meðal þjóðarinnar.

Rust sneri aftur til Þýskalands 3. ágúst 1988 og vakti heimkoma hans gríðarlega athygli á heimsvísu. Það er af Rust að segja að honum hefur gengið illa að finna réttan takt í lífinu. Hann hefur ítrekað komist í kast við lögin. Hann neitaði á sínum tíma að gegna herþjónustu og var í framhaldi dæmdur í þegnskylduvinnu á spítala, þar hreifst hann af ungri hjúkrunarkonu, en sú hrifning var ekki gagnkvæm og stakk Rust stúlkuna ítrekað með hníf og lá hún alvarlega særð eftir. Hann var í framhaldi dæmdur í þriggja ára fangelsi og var látinn laus eftir fimmtán mánaða dvöl. Síðan hefur hann verið handtekinn margsinnis og hlotið dóma fyrir endurtekinn þjófnað.

Heimildir:

l https://www.youtube.com/watch?v=10SPHevZFZY

l http://www.airspacemag.com

l https://en.wikipedia.org/wiki/Mathias_Rust








Fleiri fréttir

Sjá meira


×