Erlent

Nærri þrjátíu Egyptar féllu í árás

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Lögregla stóð vörð um spítalann sem hinir særðu lágu á.
Lögregla stóð vörð um spítalann sem hinir særðu lágu á. Nordicphotos/AFP
Enginn hefur lýst yfir ábyrgð á hryðjuverkaárás á hóp kristinna Egypta, úr koptísku rétttrúnaðarkirkjunni, sem framin var í gær. Alls féllu 28 í árásinni og 25 særðust. Koptarnir voru í rútu á leið til musteris heilags Samúels suður af Kaíró þegar skotið var á þá.

Hryðjuverkasamtökin sem kenna sig við íslamskt ríki hafa undanfarna mánuði ráðist ítrekað á kopta í Egyptalandi og heitið því að halda slíkum árásum áfram. Samtökin hafa þó ekki lýst yfir ábyrgð sinni á árás gærdagsins.

Í síðasta mánuði var þriggja mánaða neyðarástandi lýst yfir í Egyptalandi vegna árása ISIS á kopta.

Egypskir fjölmiðlar greina frá því að um tíu byssumenn, klæddir herbúningum, hafi ráðist á rútuna sem var hluti af bílalest. Skutu þeir á rútuna með hríðskotarifflum áður en þeir flúðu af vettvangi á þremur bifreiðum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×