Enski boltinn

Mertesacker: Hef aldrei spilað í þriggja manna vörn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mertesacker hefur tvisvar sinnum orðið bikarmeistari með Arsenal.
Mertesacker hefur tvisvar sinnum orðið bikarmeistari með Arsenal. vísir/getty
Per Mertesacker, fyrirliði Arsenal, segist aldrei hafa spilað í þriggja manna vörn.

Þetta er líklega ekki það sem stuðningsmenn Arsenal vilja heyra fyrir bikarúrslitaleikinn gegn Chelsea því búist er við því að Mertesacker verði í byrjunarliðinu í 3-4-3 leikkerfinu.

„Ég hef, í hreinskilni sagt, aldrei spilað í þriggja manna vörn. Þegar ég var ungur byrjaði ég í fjögurra manna vörn og hef spilað þar síðan,“ sagði Mertesacker.

Þjóðverjinn hefur glímt við meiðsli og ekkert spilað í vetur, ef frá eru taldar tæpar 40 mínútur í leik Arsenal og Everton í lokaumferð ensku úrvalsdeildarinnar á sunnudaginn.

Arsenal glímir við hálfgert miðvarðahallæri fyrir bikarúrslitaleikinn en Laurent Koscielny er í leikbanni og Gabriel meiddur. Þá er óvíst með þátttöku Shkodran Mustafi.

Mertesacker kemur því væntanlega inn í byrjunarliðið í dag. Hvort Þjóðverjinn geti klárað leikinn er annað mál enda í lítilli leikæfingu.

„Sunnudagurinn var eins konar æfing fyrir allt sem getur gerst í bikarúrslitaleiknum. Það er enginn tími fyrir mig til að ná öðrum leik. Ef hann [Wenger] hóar í mig verð ég að vera klár,“ sagði Mertesacker.

Bikarúrslitaleikur Arsenal og Chelsea hefst klukkan 16:30 og verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport HD.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×