Enski boltinn

Watford vann kapphlaupið um Silva

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Silva tókst ekki að bjarga Hull frá falli úr ensku úrvalsdeildinni.
Silva tókst ekki að bjarga Hull frá falli úr ensku úrvalsdeildinni. vísir/getty
Marco Silva er tekinn við starfi knattspyrnustjóra Watford. Hann skrifaði undir tveggja ára samning við félagið.

Silva tók við Hull City í byrjun árs og þótti gera góða hluti með liðið. Hull féll þó niður í ensku B-deildina. Silva hætti sem stjóri Hull á fimmtudaginn og er nú kominn með nýtt starf. Portúgalinn var mjög eftirsóttur var m.a. orðaður við Porto og Crystal Palace.

Auk þess að stýra Hull hefur hinn 39 ára gamli Silva stýrt Estoril og Sporting í heimalandinu og Olympiacos í Grikklandi. Silva gerði Olympiacos að grískum meisturum 2016.

Silva tekur við stjórastarfinu hjá Watford af Walter Mazzari sem stýrði liðinu í vetur. Watford endaði í 17. sæti ensku úrvalsdeildarinnar.

Watford hefur verið duglegt að skipta um stjóra á undanförnum árum en Silva er fimmti stjóri liðsins síðan í september 2014.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×