Innlent

Geta ekki tekið þátt í Sjómannadeginum vegna verkfalls

Jóhann K. Jóhannsson skrifar
Fra hátíðahöldum á Sjómannadaginn
Fra hátíðahöldum á Sjómannadaginn Vísir/Anton
Verkfall sjómanna tók mikinn toll úr sjóðum Sjómannafélags Eyjafjarðar og segir formaðurinn að félagið geti að þeim sökum ekki komið að hátíðarhöldum á Sjómannadaginn.

Sjómannafélag Eyjafjarðar hefur komið að hátíðarhöldum á Sjómannadaginn mörg undanfarin ár en mun draga sig út úr hátíðarhöldum dagsins þann 11. júní næst komandi. Konráð Alfreðsson er formaður sjómannafélags Eyjafjarðar.

„Sjómannafélag Eyjafjarðar hefur aldrei staðið að hátíðarhöldum Sjómannadagsins. Við höfum hins vegar komið að þeim með styrkjum, mismiklum eftir því hvað á þarf að halda með peningaframlögum en við munum ekki gera það í ár,“ segir formaðurinn.

Konráð segir að verkfall sjómanna undir lok síðasta síðasta árs sem stóð fram í febrúar á þessu ári hafi tekið mikinn toll.

„Við erum nýkomnir út úr löngu og erfiðu verkfalli þar sem við borguðum félagsmönnum laun á meðan á verkfalli stóð og við eigum bara ekki pening í þetta núna og þurfum að gæta aðhalds og safna fyrir frekari átökum þegar að þeim kemur.“ Konráð segir það ekki koma á óvart ef önnur stéttarfélög sjómanna standi í sömu sporum.

„Ég er alveg klár á því að stéttarfélög gera það. Stéttarfélögin eru ekki nema að litlu leyti að standa að hátíðahöldunum og sjá um þau. Það eru bæjarfélögin þar sem stærstu sjómannadagshátíðarnar eru sem standa að baki hátíðahöldunum,“ segir Konráð Alfreðsson, formaður Sjómannasambands Eyjafjarðar sem gerir ekki ráð fyrir öðru en að deginum verði fagnað í Eyjafirði í ár sem endranær.

„Kannski verður það minna en hefur verið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×