Lífið

Oasis-bróðir réttir aðstandendum fórnarlamba árásarinnar í Manchester hjálparhönd

Anton Egilsson skrifar
Liam Gallagher er frá Manchesterborg.
Liam Gallagher er frá Manchesterborg. Nordicphotos/Getty
Liam Gallagher, annar Oasis bræðranna, hefur ákveðið að gefa allan ágóða af tónleikum sem hann mun halda í næstu viku til aðstandenda fórnarlamba hryðjuverkaárásarinnar sem gerð var í Manchester á mánudag. Sky greinir frá.

Tónleikarnir sem um ræðir munu fara fram í O2 tónleikahöllinni í Manchester næstkomandi þriðjudag en tónleikarnir marka upphaf tónleikaferðalags kappans. Allur ágóði af tónleikunum mun renna í sjóð sem Breski Rauði krossinn hefur sett á laggirnar til þess að hjálpa aðstandendum fórnarlambanna. 22 einstaklingar létust og tugir slösuðust í árásinni.

„Ég vissi bara að þetta var eitthvað sem ég varð að gera, ég er ekki í þessu fyrir peningana. Ég vil reyna að hjálpa fólki að koma sér aftur á strik, ” segir Gallagher.

Bræðurnir Liam Gallagher og Noel Gallagher stofnuðu sveitina Oasis árið 1991 og var hljómsveitin starfandi til ársins 2009. Þeir eru báðir frá Manchesterborg. Á meðal þekktustu slagara sveitarinnar eru Wonderwall og Don’t look back in anger.  






Fleiri fréttir

Sjá meira


×