Fótbolti

Sara Björk tvöfaldur meistari

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sara Björk fagnar með liðsfélögum sínum.
Sara Björk fagnar með liðsfélögum sínum. vísir/getty
Sara Björk Gunnarsdóttir og stöllur hennar í Wolfsburg urðu í dag þýskir bikarmeistarar eftir 1-2 sigur á Sand í úrslitaleik í Köln.

Sara Björk var í byrjunarliði Wolfsburg. Hún náði þó ekki að klára leikinn því hún fékk að líta sitt annað gula spjald og þar með rautt í uppbótartíma.

Wolfsburg vann einnig þýsku úrvalsdeildina og er því tvöfaldur meistari. Þetta er jafnframt þriðja árið í röð sem Wolfsburg verður bikarmeistari.

Staðan var markalaus í hálfleik en á 66. mínútu kom danski framherjinn Pernille Harder Wolfsburg yfir. Hún var svo aftur á ferðinni níu mínútum seinna og staða Wolfsburg því orðin vænleg.

Á 77. mínútu fékk Alexandra Popp, leikmaður Wolfsburg, rautt spjald og mínútu síðar minnkaði Jovana Damnjanovic muninn fyrir Sand.

Þrátt fyrir að vera einni og svo tveimur fleiri tókst leikmönnum Sand ekki að jafna metin og Wolfsburg fagnaði 1-2 sigri.

Það er ekki hægt að segja annað en að fyrsta tímabil Söru Bjarkar í búningi Wolfsburg hafi verið frábært. Hún var fastamaður í einu sterkasta liði Evrópu og vann tvöfalt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×