Erlent

Hætt við allar flugferðir British Airways

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
British Airways hefur ekki gengið vel í dag.
British Airways hefur ekki gengið vel í dag. Vísir/EPA
Breska flugfélagið British Airways hefur hætt við allar flugferðir sínar frá Heathrow og Gatwick flugvelli í dag vegna bilunar í tölvukerfum. Í tilkynningu frá flugfélaginu kemur fram að um meiriháttar bilun sé að ræða í tölvukerfum nokkurra alþjóðlegra flugfélaga. BBC greinir frá.

Þetta þýðir að tafir eru á ferðum flugfélagsins víða um heim og sitja þúsundir farþega flugfélagsins því á flugvöllum og bíða eftir því að geta haldið leið sinni áfram. Bilunin hefur haft áhrif á vefsíðu flugfélagsins, smáforrit og þjónustumiðstöðvar.

Flugfélagið getur því ekki séð með fullnægjandi hætti um bókun farþega eða innritun farangurs. Í tilkynningu frá flugfélaginu kemur fram að ekki sé um tölvuárás að ræða eins og haldið hafi verið fram í fyrstu.

Félagið hefur í kjölfar vandræðanna í dag verið gagnrýnt fyrir bilunina og meðal annars hefur því verið haldið fram að ákvörðun félagsins um að gera samninga við þjónustufyrirtæki í Indlandi um uppihald bókunarkerfis og innritunarkerfi sé um að kenna. Flugfélagið hefur neitað því.

Fúlir farþegar hafa tjáð sig um atvikið á Twitter og lýst yfir miklum pirringi vegna þess sem kallað er upplýsingaskortur af hálfu flugfélagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×